145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

framtíðarsýn í skattkerfum og samfélagslegt hlutverk skatta.

[14:31]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur, þessa umræðu og tek undir með öðrum sem hafa fagnað henni því hún er afar mikilvæg. Ef eitthvert málefni er stefnutengt og hápólitískt þá eru það skattar og skattkerfin okkar. Það skiptir máli hvernig við hugsum þessi tekjuöflunarkerfi, framsetninguna, og hversu mikil skattlagningin getur verið og í hvaða formi.

Það hefur komið fram, og ég tek undir það, að skattkerfið þurfi að endurspegla samfélagið á hverjum tíma og taka mið af samsetningu hagkerfisins, hvernig verðmætasköpunin á sér stað og hvernig hún myndast. Þá verða skattar á auðlindir áleitin spurning til framtíðar og að sama skapi grænir skattar til verndar náttúru og umhverfi.

Við þurfum á sama tíma að vanda okkur með þessi kerfi. Það verður ávallt fín lína að finna út hversu háir skattar geta verið, hve hægt er að leggja mikið á skattgreiðendur, hvernig það virkar á vinnuframlag, frumkvæði, rekstrarskilyrði atvinnulífsins og fjárfestingar. Það er nátengt atvinnulífinu. Það vegur svo salt á við það hversu miklar tekjur við raunverulega þurfum til að reka okkar grunnþjónustukerfi.

Þetta jafnvægi þarf að vera þannig að kerfin séu einföld og skilvirk þannig að þau skili sér á breiðum grunni á réttum tíma og frá öllum. Ég tek undir með hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra að samspil tekjuskattskerfisins og bótakerfisins er mjög flókið. Það þarf að vinna áfram í því.

Varðandi stefnu og dæmi um að skattkerfi virki þá vil ég meina að ríkisstjórnin hafi sýnt það á þessu kjörtímabili, og vísa til dæmis til aukins kaupmáttar, (Forseti hringir.) að skattbyrðinni hefur verið létt af fólki með millitekjur og þeim sem lægri hafa tekjurnar.