145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

framtíðarsýn í skattkerfum og samfélagslegt hlutverk skatta.

[14:33]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Við höfum bara tvær mínútur til að ræða þetta flókna mál. Yfirleitt ef ekki alltaf þegar skatta ber á góma hér á bæ, og þótt víðar væri leitað, er talað um flækjustigið, að það þurfi að einfalda skattkerfið. Að mínu viti er það dagsatt. Þá er jafnan farið út í það hversu mörg þrep eigi að vera í hinum eða þessum skattinum, segjum tekjuskatti. En þá finnst mér alltaf gleymast að nú er til staðar upplýsingatæknibylting sem er í meginatriðum gagnleg vegna þess að hún getur gert mjög flókna hluti mjög einfalda.

Hafandi verið þingmaður í þrjú ár eða svo kann ég að sækja ákveðnar upplýsingar. Ég veit hvern ég á að spyrja ef ég veit nokkurn veginn hvaða upplýsingar mig vantar. Hið sama á við um sérfræðinga í ráðuneytum, skattasérfræðinga og fólk sem vinnur við þess hluti daglega. En þegar kemur að almenningi þá er hann svolítið blindur á það hvert eigi að leita að hvaða upplýsingum. Það er vandamál sem hægt er að laga. Það er hægt að laga það vandamál með þeim hætti að setja skattkerfið fram á þann hátt að það sé ekki háð sérfræðiþekkingu eða því að við einblínum á tiltekna þætti skattkerfisins til að gera okkur skiljanleg í þeim tillögum sem koma upp, hvort sem það er hækkun eða lækkun skatta.

Vandamálið í mínum huga, þegar kemur að einföldun skattkerfisins, er fyrst og fremst það að við blöndum saman verkfræðilegum vandamálum og pólitískum vandamálum. Það er pólitískt bitbein hvernig skattkerfi eigi að vera af margs kyns ástæðum sem ég hef ekki tíma til að fara út í enda sjálfsagt augljósar í meginatriðum, en verkfræðilegur þáttur er líka til staðar. Ein einfaldasta leiðin til að útskýra þetta er ef fólk fer í einhvern heimabankann eða á vefsíðu banka og reiknar út húsnæðislán. Þar eru flóknir útreikningar fyrir venjulegt fólk settir fram á hátt sem venjulegt fólk getur skilið og tekið upplýstar ákvarðanir út frá; út frá þáttum sem það mundi ekki skilja ef ekki væri fyrir þessar reiknivélar. Það eru slíkar lausnir sem við eigum að horfa til, ekki bara pólitísku spurningarnar þegar kemur að einföldun skattkerfisins heldur líka hvað hægt sé að gera til að setja kerfið fram á hátt sem gagnast öllum hvað best.