145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

framtíðarsýn í skattkerfum og samfélagslegt hlutverk skatta.

[14:38]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Ég vil líka koma því að hér að ég styð að sjálfsögðu meginprinsippið í núverandi tekjuskattskerfi, sem er að við erum með stigvaxandi skattprósentu vegna persónuafsláttarins, það sem við stundum köllum prógressíft skattkerfi. Mín skoðun er bara sú að það sé ofgert að setja síðan þrjú skattþrep ofan á prógressíft skattkerfi eða ofan á persónuafsláttinn. Við ættum frekar að horfa á persónuafsláttinn sem tæki til að ná frekari árangri en að leggja alla áherslu á þriðja skattþrepið, enda held ég að það hafi alls ekki skilað þeim árangri sem að var stefnt, hvorki í tekjuöflunarhlutanum, vegna þess að það skilar tiltölulega litlum viðbótartekjum, né heldur í hlutverki sem jöfnunartæki. Þá er ég ekki síst að vísa til þess að efsta skattþrepið hefur komið allt of snemma inn ef menn eru að leggja áherslu á jöfnunarhlutverkið.

Í öðrum löndum, þar sem umræða er tekin um sérstaka skatta á hátekju- og stóreignafólk, erum við almennt að tala um miklu meiri misskiptingu auðs og miklu meiri tekjudreifingu, þ.e. miklu meiri launamun. Ég nefni sem dæmi það sem oft var rætt hér í þingsal, hugmyndir í Frakklandi um sérstakan hátekjuskatt. Um hvaða tekjur var verið að ræða? Það var verið að ræða um tekjur yfir einni milljón evra á ári, þ.e. rétt um 10 milljónir á mánuði. Við erum hér komin með hátekjuskatt í 800 þús. kr., sem er 8% af viðmiðinu sem var til grundvallar umræðunni í Frakklandi. Þetta er bara eitt af því sem ég vildi koma á framfæri.

Ég tek síðan undir hvað varðar framsetningu á skattkerfinu. Mér finnst breytingar sem við höfum gert í samvinnu (Forseti hringir.) við ríkisskattstjóra hafa verið mjög til bóta. Nú sjá skattgreiðendur hvað fer til ríkis og hvað fer til sveitarfélaga. Til viðbótar mundi ég vilja láta birta sérstaklega skattprósentuna (Forseti hringir.) þína vegna þess að hún er sérstök fyrir hvern og einn í tekjuskattinum.