145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

stefna í skattlagningu á bifreiðaeigendur.

[14:52]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu. Það er alveg rétt sem hér hefur verið sagt að það er oft gott að staldra við og fara í gegnum skattafrumskóginn og mögulega grisja úr eða laga til og sameina flokka o.s.frv. Það er eitt verkefni, það er tiltektarverkefni sem ég held að allir sem setið hafa í Stjórnarráðinu þekki að einhverju leyti. En síðan er stóra verkefnið að vera með einhverja stefnu í þessum málaflokkum. Það er það sem skort hefur hér.

Við settum á laggirnar og unnum eftir stefnu á síðasta kjörtímabili. Það var orkuskiptaáætlun í samgöngum sem Græna orkan byggir á, en hún er klasasamstarf um orkuskiptaverkefni sem enn er í gangi. Hún á mikinn þátt í þeirri stefnumótun sem unnin var á síðasta kjörtímabili. Mér hefur þótt miður að heyra lítið um þá áætlun núna, það er einhvern veginn eins og við náum aldrei að láta svona verkefni sem fara af stað af einhverjum krafti lifa fram yfir ríkisstjórnarskipti.

Það eru engin trúarbrögð á ferðinni neins staðar. Það eru allir að reyna að nálgast þetta verkefni með raunsæjum hætti. Ég held að ef við settumst niður og reyndum að taka þetta verkefni alvarlega svona einu sinni gætum við farið að ná árangri eins og t.d. Norðmenn. Í Noregi voru tveir af hverjum þremur seldum nýjum bifreiðum í mars tvinn- eða rafbílar. Það er vegna þess að þeir hafa tekið ákvörðun um að beita gjalda- og skattkerfinu til þess að ná þeirri niðurstöðu.

Ef við viljum fara þá leið eigum við fyrirmyndir á því sviði. Það er hægt að gera þetta. Við höfum bara gefið í og dregið úr eftir því sem nýjar ríkisstjórnir koma. Því þurfum við að breyta.

Ég skil ekki heldur andstöðuna við skattlagningu á mengandi ökutæki eða mengandi iðnað, það er einhver sú skilvirkasta skattlagning sem fyrir finnst.

Enn og aftur (Forseti hringir.) hvet ég til þess að menn setjist nú niður og horfi á það sem gert hefur verið, þá stefnu sem mörkuð hefur verið, og reyni að vinna úr því einhverja almennilega framtíðarsýn.