145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

stefna í skattlagningu á bifreiðaeigendur.

[14:54]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Það er eðlilegt að skattar á bíla taki mið af umhverfinu, notkun á vegakerfi landsins og losun gróðurhúsalofttegunda. Fyrst og fremst hefur verið litið til vélarstærðar við álagningu innflutningsgjalda og þunga ökutækja við álagningu bifreiðagjalda. Á síðasta kjörtímabili voru stigin stór skref í þá átt að láta bifreiða- og vörugjöld endurspegla losun gróðurhúsalofttegunda. Eðlilegt er að vörugjöldin lækki áfram á neyslugranna bíla og að engin vörugjöld leggist á rafmagns- og tvinnbíla og að umhverfisvæn ökutæki almennt beri lægri vörugjöld og vask.

Eftir þær breytingar sem gerðar voru fyrir fimm árum, að vörugjöld á bíla tækju mið af útblæstri á koltvísýringi, hefur verð á minni og umhverfisvænum bílum lækkað en hækkað á stórum bensínhákum. Mér finnst mikilvægt að stjórnvöld fylgi eftir heildstæðri stefnu í skattlagningu bifreiða sem taki mið af því að auðvelda almenningi að endurnýja ökutæki sitt þannig að það sé umhverfisvænt. Í dag er það ekki á færi efnaminni fólks að fjárfesta í nýlegum umhverfisvænum bílum. Minnstu bílarnir sem eru á lægra verði henta ekki við erfiðar aðstæður, t.d. í snjóþunga víða á landsbyggðinni. Veruleikinn er sá að aðstæður og fjölskyldustærð krefjast oft stærri bíla sem eru dýrir. Tekjulægra fólk situr uppi með eldri bíla sem menga meira og nýtur ekki þeirra tækniframfara í þeim sparneytnu bílum sem eru komnir á markað í dag. Mér finnst mikilvægt að stjórnvöld vinni eftir heildarstefnumótun um skattlagningu ökutækja og eldsneytis þar sem horft verði til markmiða í loftslagsmálum, umhverfisvænni samgangna og vistvænni ökutækja.

Að lokum vil ég benda á að gjaldtaka af eldsneyti (Forseti hringir.) á að fara í það fyrst og fremst að bæta samgöngur í landinu.