145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

stefna í skattlagningu á bifreiðaeigendur.

[15:11]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Það er svolítið sérstakt að á meðan við ættum í raun og veru að gera allt sem við getum til að hætta að brenna jarðefnaolíum, eldsneyti, þá fögnum við bara þegar verð á eldsneyti lækkar á heimsmarkaði. Mér finnst ekkert óhugsandi að setja þak, segja bara: Bensínlítrinn kostar 300 krónur. Við erum að reyna að gera allt sem við getum til að fá fólk til að nota aðra orkugjafa — þ.e. ef við erum sammála um að það að brenna eldsneyti sé vont og að ógn stafi af gróðurhúsaáhrifum og loftslagsbreytingum í heiminum.

Við gerum þetta til dæmis með áfengi og tóbak. Þá höfum við háa skatta. Það er ekki þannig að þegar vel gengur í Suður-Ameríku, eða hvar þar er sem þeir rækta tóbakslaufin, og tóbakið lækkar í verði, að þá lækki verð á sígarettum. Við höldum verði á þessum vörum háum vegna þess að við viljum að neyslan á þeim sé minni, bara neyslustýring. En við þorum ekki alveg að gera þetta þegar eldsneyti er annars vegar. Ég er ekki endilega að tala fyrir þessu en hin leiðin er þá að vera með verulega ívilnandi aðgerðir til að beina fólki í átt að rafbílum, metanbílum eða öðrum nýorkubílum. Sú stefna hefur verið mörkuð. Ég er ánægð að heyra að hæstv. fjármálaráðherra hefur skilning á því að þarna þurfi að beita hvötum. Við þurfum að gera enn meira. Ég tek undir það sem hér hefur komið fram um að setja okkur markmið eins og t.d. Hollendingar og Norðmenn gera.

Mér finnst þetta hafa verið góð umræða og skemmtilegri en ég bjóst við. Ég þakka málshefjanda fyrir að setja hana á dagskrá og hvet hæstv. fjármálaráðherra til dáða. Ég mundi vilja sjá miklu meira gert í opinberum innkaupum, þ.e. af hálfu ríkisins. Ég vil ekki lesa enn eina fréttina um að keyptur hafi verið Land Cruiser fyrir einhverja stofnun því að í dag er hægt að fá nýorkubíla af öllum stærðum og gerðum.