145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

stefna í skattlagningu á bifreiðaeigendur.

[15:15]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég var hér í þingsal fyrir nokkrum árum þegar við breyttum gjöldunum á eldsneyti. Við gerðum það þá undir þeim formerkjum að nýjustu vísindi sýndu okkur að dísileldsneyti væri umhverfisvænna en bensínið. Við enduðum þá með því að lækka álögur á dísil vegna þess sérstaklega að þá var heimsmarkaðsverðið á dísil orðið svo hátt á móti bensíninu. Síðan hefur það snúist við. Nú er dísill töluvert ódýrara eldsneyti en bensínið. Í millitíðinni eru að berast nýjustu tíðindi um að sótið frá dísil sé skaðlegra, sérstaklega í þéttbýlinu, og sums staðar eru dísilbílar jafnvel bannaðir í dag. Ég nefni þetta bara sem dæmi um það að við þurfum að vanda okkur og sérstaklega þegar kemur að því að taka ákvörðun um að mismuna einni eldsneytistegund umfram aðra.

Ég tek undir með hv. málshefjanda varðandi vörugjöld á bifreiðar fyrir einstaklinga. Mér finnst bilið milli hæsta vörugjalds og lægsta vera óeðlilega lágt og þrepin óeðlilega mörg. Í þessari stefnu felst líka sú ákvörðun að marka Íslandi sess með þeim löndum þar sem bílar eru hvað dýrastir í heiminum. Það er slík neyslustýring sem við erum með hér á Íslandi. Það eru eingöngu örfá önnur lönd þar sem bílar eru jafn dýrir og hér. Við getum tekið dæmi; hvort sem við færum vestur yfir haf eða til landa eins og Þýskalands, inn á meginland Evrópu, þá er nánast hægt að taka hvaða meðalbíl sem er og fullyrða að hann kostar upp undir helmingi meira á Íslandi. Þarf þetta endilega að vera þannig? Þurfum við svona grimma neyslustýringu? Ég er ekki viss um það.

Það sem ég vonast til þess að gerist, eins og margir sem hafa tekið þátt í umræðunni, er að við sjáum áframhaldandi hraða þróun í rafbílum þannig að þeir verði klárlega umhverfisvænni, og þá erum við kannski ekki síst að horfa til rafgeymanna sem knýja þá áfram, að þeir verði jafn góður valkostur fyrir lengri vegalengdir og að við náum þannig markmiðum okkar um að draga úr losun og að þeir geti keppt án sérstakra ívilnana við aðrar bifreiðar. Þetta væri mjög æskileg þróun og vonandi (Forseti hringir.) náum við þeim markmiðum.

En að lokum um losunina (Forseti hringir.) skulum við alltaf muna að okkar vandi varðandi losun er ekki mestur af bifreiðaflotanum þó að bifreiðaflotinn eigi þar þátt að máli, hann er mestur á (Forseti hringir.) öðrum sviðum og þar hefur þurrkun lands mest haft skaðleg áhrif.