145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

783. mál
[15:29]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S) (andsvar):

Forseti. Ég er hér neytandi í pontu Alþingis og hef nákvæmlega sama rétt og neytandinn hv. þm. Ögmundur Jónasson. Mér er kunnugt um að hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur alloft ferðast til útlanda og af samanlagðri ræðu þingmannsins mætti skilja að hann ætti að vera löngu dauður vegna þess að hann hefur borðað erlend matvæli sem eru ekki eins holl og íslensk matvæli. En þessi ræða var svo sem ekki neitt nýstárleg frá hv. þingmanni sem hefur oft og tíðum mælt heldur gegn erlendum samskiptum. En ég ætla bara að spyrja þingmanninn í stuttu máli: Er vilji þingmannsins að snúa niður af öllum þeim innflutningi sem nú þegar hefur verið leyfður með ýmsum samningum og háum tollum og hætta þá milliríkjaviðskiptum með landbúnaðarafurðir?

Hér eru fluttar hjartnæmar ræður um þróun í íslenskum landbúnaði og þær hjartnæmu ræður byggjast m.a. á útflutningi á íslenskum landbúnaðarafurðum. Þá er hætta á að allir markaðir lokist, en er það vilji hv. þingmanns að snúa niður af því sem þegar er orðið? Eða eru mörkin hér?

Ég hef lokið máli mínu.