145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

783. mál
[16:11]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það gleður mig að ég og hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason virðumst ætla að fara inn í umræðuna í hv. utanríkismálanefnd í sátt. Það held ég að skipti máli og hljóti alltaf að verða málum til góðs að þingmenn, hvar í flokki sem þeir standa, gangi tiltölulega sáttir hvor við annan inn í umræður.

En ég held að það sé alveg hárrétt sem fram kom undir lok máls hv. þingmanns að við þurfum einmitt að skoða þessi mál í ljósi umhverfisáhrifanna sem landbúnaðarmál hafa, hvort sem það er hér á Íslandi eða annars staðar í heiminum. Ég kom inn á það í ræðu minni um búvörusamningana að það væri einmitt eitt af því sem þyrfti að skoða, hvort framleiðsluaukning mundi geta leitt til ofbeitar á landsvæði, það væri eitt af því sem við þyrftum að skoða í umhverfislegu ljósi.

Svo er annað sem ég tel að við þurfum einnig að skoða og á kannski frekar heima í hv. utanríkismálanefnd. Það eru umhverfisáhrifin sem hljótast af því að flytja matvæli langar leiðir heimshorna á milli. Ég held að við verðum að taka það mál mjög föstum tökum. Ef okkur er einhver alvara með því að vilja ná tökum á loftslagsbreytingum verðum við að skoða hvernig við flytjum matvæli að óþörfu á milli landa. Auðvitað eru ýmiss konar viðskipti með matvæli sem nauðsynlegt er að fari fram, en það er alveg rosalega margt sem ég held að við gætum ræktað hér í nærumhverfi okkar og haft þannig góð áhrif á umhverfið.