145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

783. mál
[16:19]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég verð að viðurkenna að ég átta mig samt ekki alveg á öllum þáttum sem fram komu í máli hans.

Fæðuöryggi er nefnt og sjálfbærni. Sömuleiðis mikilvægi þess og sú þróun sem er mjög jákvæð að sífellt fleiri neytendur vilja fá að vita hvaðan varan kemur, upprunamerking o.s.frv. Því er stillt svolítið upp sem andstöðunni við að opna markaðina.

Ég sé ekki neina andstöðu við upprunamerkingu vöru og aukna samkeppni í matvælaframleiðslu. Að því gefnu að við sem neytendur fáum að vita það þá höfum við valkost.

Við fáum brátt 2 milljónir af ferðamönnum og þurfum náttúrlega að sjá til þess að það séu næg og fjölbreytt matvæli, það er sérmál.

En sér hv. þingmaður engan mun á hefðbundnum landbúnaði og verksmiðjubúskapnum? Það er gríðarlegur munur á fjölda býla hjá kjúklingaræktendum og svínaræktendum, sem eru sárafáir — ég held að eignin á þeirri framleiðslu sé að stærstum hluta í höndum tveggja aðila, kannski fjögurra, fimm, eitthvað slíkt — og þeim hundruðum, jafnvel þúsundum sem eru í sauðfjárrækt og mjólkurframleiðslu, svo dæmi sé tekið.

Finnst hv. þingmanni ekki rétt að hafa einhver skil þar á milli?

Ég spyr af því að ég átta mig ekki á því hvernig falist getur þversögn í því að hafa upprunavottorð, sem ég held að sé mjög gott og mikilvægt, og þess að hafa opnanirnar. Ég sé ekki að það geti farið hvort gegn (Forseti hringir.) öðru.

Síðan spyr ég hvort hv. þingmaður geri engan greinarmun á hinum hefðbundna landbúnaði og verksmiðjubúskapnum.