145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

783. mál
[16:21]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það þurfi nú varla að ræða það að rekjanleiki vöru er náttúrlega allt annar og auðveldari viðfangs þegar kemur að innlendri framleiðslu en innflutningi t.d. á því kjötmagni sem stundaður hefur verið að undanförnu.

Ég hef séð pakkningarnar sem frystar nautalundir koma í eða kjúklingabringur eða hvað það er. Það er varla stafkrókur nokkurs staðar um það hvernig það var framleitt og hvaðan það kemur.

Við höfum með okkar góðu framleiðslu tvær góðar leiðir til þess að upplýsa neytendur um hvað þeir kaupa; annars vegar þær reglur sem við höfum hér almennt séð um aðbúnað, dýravelferð og hollustu, um að banna vaxtarhvetjandi hormóna og annað slíkt, og síðan beinan rekjanleika alveg niður á framleiðendur og jafnvel niður á einstaka kind í tilviki sauðfjár.

Fæðuöryggi, sjálfbærni, rekjanleiki, að lágmarka vistsporið, það er ekkert grínmál í dag. Það þýðir ekki annað. Ef menn ætla að komast inn í nýja tíma í sambandi við umhverfismál verða menn að taka alvarlega umræður um þá hluti alla saman og neytendur munu halda mönnum við efnið á komandi árum.

Þess vegna eigum við líka að spyrja okkur: Erum við ekki að einhverju leyti fórnarlömb úreltrar hugmyndafræði þegar kemur að þessum gamla hugsunarhætti að það eigi bara að verkaskipta heiminum og að einn eigi að framleiða allt stál og annar allan mat og svo bara víxli menn því á milli með flutningum um allan heiminn?

Það er hugmyndafræði sem er hrunin til grunna og eyðileggur plánetuna. Það hélt ég að væri nokkuð viðurkennt í þessum kúltúr öllum saman.

Er munur á hefðbundnum landbúnaði og t.d. þessum greinum, svínarækt og alifuglarækt? Já, upp að vissu marki. En þó er það nú ekki einhlítt. Í svínaræktinni eru 12–15 fjölskyldubú með um 1/3 af markaðnum, dreifðum um landshlutana. Þau eru ákaflega mikilvægur og samofinn hluti af landbúnaðinum og þjónustu við landbúnaðinn á þeim svæðum.

Sú skarpa aðgreining sem menn vilja stundum draga upp á sér því ekki stoð í veruleikanum þegar kemur að keðjuáhrifum sem það mundi t.d. hafa ef (Forseti hringir.) þessar einingar legðust í stórum stíl af og eftir sætu annað hvort tvær verksmiðjur eða ekki neitt.