145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

783. mál
[16:34]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það að það er erfitt að ræða þetta vegna þess að við höfum svo stuttan tíma, en mér finnst ekki hægt að ræða þessi mál nema í samhengi við búvörusamningana. Þegar menn fara að ræða þessi mál, þó að þeir komi úr ólíkum áttum, held ég að hægt sé að ná niðurstöðu sem flestir geti verið sáttir við. En að ganga fram með þeim hætti sem við gerum núna og gera samninga til mjög langs tíma, til tíu ára, án þess að taka umræðu um markmið og leiðir og hvernig við ætlum að ná þeim — ég held að það sé ekki góður bragur á því og ég held reyndar að það muni skaða atvinnugrein eins og landbúnaðinn. Það vekur óþarfa óróa og ósætti sem er alveg hægt að komast hjá.

Ég held að í grunninn séu flestir sammála um markmið og leiðir. Mér finnst ánægjulegt að það hefur eiginlega staðið upp úr hverjum einasta hv. þingmanni að menn eru farnir að meta mikilvægi þess að framleiða heilnæmar landbúnaðarafurðir. Nú er ég einn þeirra. Ef einhver vill hins vegar kaupa eitthvað annað eða borða eitthvað annað þá er það bara ákvörðun hvers og eins. Ég tel ekki að við sem ríkisvald eigum að ákveða hvað hver á að borða. En ég vil hins vegar fá að vita hvað er á borðum, hvað menn eru að kaupa, og mér finnst sjálfsagt að við neytendur fáum rétt til þess. Mér finnst það vanta í umræðuna hjá mörgum hagsmunaaðilum.

Ég vek athygli, forseti, á því að hér er um að ræða gríðarlega mikla aukningu. Ég held að engin ríkisstjórn hafi áður opnað markaði jafnmikið og þessi ríkisstjórn með þessum samningum. Þegar menn gagnrýna það, bara eins og það sé slæmt í eðli sínu, þá verður líka að hafa í huga að við erum með tvær milljónir af ferðamönnum hér. Ef menn ætla að segja: Heyrðu, við ætlum bara að sjá um þetta með eigin framleiðslu, ætlum að loka mörkuðum, þá þurfa menn aðeins að útskýra hvernig á að gera það á mjög skömmum tíma. Við þurfum að gera það á mjög skömmum tíma.

Ég held hins vegar að við eigum að ganga í ákveðna hluti. Ég nefni enn og aftur, og það þarf að gera það í umræðum um þetta mál, að við þurfum að ákveða hvernig við ætlum að framkvæma söluna eða opnun með þessum tollkvótum. Þessi uppboð eru ekki að ganga upp. Það gerir að verkum að þetta eru allt of dýrar vörur. Það eru engin málefnaleg rök fyrir því. Það er bara brotið þannig á neytendum.

Við erum að fara úr 750 tonnum í 3.812 tonn þegar allt er tekið saman, svo að menn átti sig á hve mikil breytingin er. Ég veit heldur ekki hvort það var rætt í umræðunni um landbúnaðarmálin að við eigum að ná samstöðu um endalok á undanþágu frá samkeppnislögunum. Það held ég að sé eitthvað sem við eigum að ganga í allra hluta vegna, ekki síst vegna þess að mér finnst það eitt og sér ala á mikilli tortryggni. Við þurfum hugsanlega að styrkja samkeppnisumhverfið með einhverjum hætti. Þá er ég að vísa í eftirlitskerfið, að það séu sterkari stofnanir með betri þekkingu og að við séum að nýta reynslu frá öðrum þjóðum.

Ég tel að það séu mikil sóknarfæri fyrir vöru sem er heilnæm og góð. Fyrir framsýni íslenskra bænda fórum við sem betur fer ekki þær leiðir sem þjóðir í nágrenni við okkur fóru, hvort sem það er með vaxtarhvetjandi hormónum eða með sýklalyfjum, eins og gert er innan Evrópusambandsins. Það er að vinna með okkur núna. Það eru mjög umhugsunarverðar fréttir sem berast til dæmis af óþoli gagnvart sýklalyfjum. Ég held að flestir upplýstir einstaklingar, ég ætla ekkert að tala fyrir hönd annarra, en ég finn það þegar maður fer í verslanir bæði innan lands og utan, líti til þessara þátta í meira mæli en áður hefur verið. Ég hef aldrei séð í íslenskri verslun sýndan samanburð á íslensku kjöti og kjöti frá öðrum löndum þegar kemur að sýklalyfjanotkun. Ef ég væri að selja íslenska vöru mundi ég vekja athygli á því og ég mundi til dæmis kenna því fólki sem hingað kemur hver munurinn er á okkar vöru og öðrum vörum. Hvernig í ósköpunum geta menn vitað það ef enginn segir þeim frá því?

Við eigum að stuðla að samkeppni en ef við viljum (Forseti hringir.) virkilega hjálpa fátækum þjóðum gerum við það með því að opna okkar markaði, meðal annars hvað matvælaframleiðslu varðar. Auðvitað er Evrópusambandið ekki fátækt og er verndarbandalag en við eigum að ýta undir frjáls viðskipti og sömuleiðis að setja okkur markmið varðandi heilnæma framleiðslu.