145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

783. mál
[16:40]
Horfa

utanríkisráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin lítur á landbúnað sem eina af mikilvægustu atvinnugreinum þjóðarinnar. Vaxandi eftirspurn eftir mat á heimsvísu skapar íslenskum landbúnaði sóknarfæri. Ég ítreka að ekki er verið að semja um tollalækkanir í viðkvæmum vörum heldur var samið um tollkvóta og gagnkvæmni þar sem því varð komið við.

Búvörusamningarnir sem gerðir hafa verið til lengri tíma eru jákvæðir því að þeir auka rekstraröryggi bænda. Ég tel að það sé mjög farsælt fyrir land og þjóð hvernig þetta tvinnast saman.

Það er tvennt sem mig langar að nefna til viðbótar. Ég vil líka segja að þær umræður sem hér eiga sér stað eru mjög góðar og gagnlegar. Í fyrsta lagi hefur verið unnið að því að skoða leiðir varðandi framkvæmd úthlutunar á kvótum sem gæti komið til móts við framleiðendur, t.d. með því að úthluta kvótunum oftar yfir árið, afmarka hluta kvótans í svínakjöti við vörutegundir sem skortur er á og horfa til aðferða við útreikning kvótans, kjöt með eða án beina.

Ég vil einnig nefna og ítreka að hinn 8. apríl síðastliðinn setti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á fót starfshóp sem hefur það hlutverk að kanna áhrif tollasamning við ESB og leggja mat á hvernig einstaka búgreinar geti tekist á við afleiðingar samningsins, einkum þegar horft er til svína- og alifuglaræktar. Vonir standa til að hópurinn nái niðurstöðu fljótlega.

Ég verð að segja að ég tek undir með þeim hv. þingmönnum sem hafa rætt um mikilvægi þess að farið sé mjög vel í þessa vinnu og hugað að heilbrigðissjónarmiðum.

Í öðru lagi er stundum spurt hvort hækkaðir ESB-tollkvótar komi til viðbótar við opna kvóta. Nei, þvert á móti er áætlunin að þessir nýju kvótar komi í stað opinna tollkvóta sem gefnir hafa verið út á undanförnum árum til að bregðast við aðstæðum á markaði. Þeir hafa ekki átt sér stoð í alþjóðlegum samningum en verið gefnir út til að mæta innanlandsþörf. Nýir samningsbundnir tollkvótar munu koma í staðinn.

Með hliðsjón af innflutningstölum má ætla að þeir fari langt með að endurspegla raunverulegan innflutning við núverandi aðstæður.