145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

þjóðaröryggisráð.

784. mál
[16:43]
Horfa

utanríkisráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um þjóðaröryggisráð. Hinn 13. apríl síðastliðinn samþykkti Alþingi mótatkvæðalaust þingsályktun um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland. Í þjóðaröryggisstefnunni er tekið fram að stefna stjórnvalda um þjóðaröryggi byggist á þeim skuldbindingum sem felast í stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna og hafi grunngildi þjóðarinnar að leiðarljósi, lýðræði og virðingu fyrir réttarríkinu og alþjóðalögum, mannúð og verndun mannréttinda, jafnrétti allra og sjálfbæra þróun, afvopnun og friðsamlega lausn deilumála. Grundvallarforsenda stefnunnar sé að Ísland sem fámenn eyþjóð sem ekki hefur burði né vilja til að ráða yfir her og tryggir öryggi sitt og varnir með virkri samvinnu við önnur ríki og innan alþjóðastofnana. Þjóðaröryggisstefnan tekur til hnattrænna, samfélagslegra og hernaðarlegra áhættuþátta og felst í virkri utanríkisstefnu, almannaöryggi og varnarsamstarfi við önnur ríki. Stefnan tiltekur 11 áhersluatriði innan þessarar þrískiptingar sem mynda kjarna þjóðaröryggisstefnunnar.

Síðasta áhersluatriðið mælir fyrir um að sett verði á fót með sérstökum lögum þjóðaröryggisráð sem meti ástand og horfur í öryggis- og varnarmálum með reglubundnum hætti, hafi eftirlit með framfylgd þjóðaröryggisstefnunnar, endurspegli þá breiðu sýn á þjóðaröryggi sem birtist í stefnunni og standi fyrir endurskoðun hennar eigi sjaldnar en á fimm ára fresti.

Virðulegi forseti. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að á Íslandi starfi þjóðaröryggisráð sem forsætisráðherra veiti formennsku og starfsaðstöðu. Að auki er gert ráð fyrir að í þjóðaröryggisráði eigi sæti utanríkisráðherra og innanríkisráðherra, ráðuneytisstjórar viðkomandi ráðuneyta, ríkislögreglustjóri og forstjóri Landhelgisgæslu Íslands. Þá geti þjóðaröryggisráð kallað fleiri ráðherra, embættismenn, einstaklinga og fulltrúa lögaðila til setu í ráðinu varðandi einstök mál. Þessi samsetning endurspeglar vel uppbyggingu og áherslur þjóðaröryggisstefnunnar og skipulag öryggis- og varnarmála hér á landi.

Verkefni þjóðaröryggisráðs er að hafa eftirlit með framkvæmd þjóðaröryggisstefnunnar og jafnframt vera samráðsvettvangur um þjóðaröryggismál. Sem fyrr greinir er ráðinu enn fremur ætlað að meta ástand og horfur í öryggismálum og fjalla um önnur málefni er varða þjóðaröryggi auk þess að standa fyrir opinni og lýðræðislegri umræðu um öryggis- og varnarmál í samvinnu við eftir atvikum háskólasamfélagið, hugveitur og fjölmiðla. Ég tel fræðslu- og upplýsingaþáttinn afar mikilvægan, enda brýnt að við getum tekið gagnrýna og opna umræðu og átt skoðanaskipti um þennan mikilvæga málaflokk með skipulögðum og reglubundnum hætti.

Samráð við Alþingi er einnig afar mikilvægt í mínum huga og er það sérstaklega tilgreint í frumvarpinu. Þjóðaröryggisráðinu ber að upplýsa Alþingi um framkvæmd þjóðaröryggisstefnunnar á hverju ári og hverjar þær breytingar sem þjóðaröryggisráðið telur að þurfi að gera á stefnunni skal bera undir Alþingi. Enn fremur skal samkvæmt frumvarpinu upplýsa utanríkismálanefnd Alþingis um hver þau mál sem líkleg eru til að hafa áhrif á þjóðaröryggisstefnuna og framkvæmd hennar.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að þjóðaröryggisráð komi reglulega saman til funda auk þess sem forsætisráðherra boði til funda ef þeir atburðir verða eða eru yfirvofandi sem ætla má að hafi áhrif á þjóðaröryggi. Með öðrum orðum: Hér er annars vegar um að ræða vettvang til reglubundins samráðs og samhæfingar og hins vegar vettvang sem kallaður er saman ef áföll verða eða yfirvofandi hætta skapast. Í því samhengi skiptir máli ákvæði um samráð við almannavarna- og öryggismálaráð sem sett var á fót með lögum um almannavarnir nr. 82/2008.

Ákveðin skörun á sér stað í starfsemi þessara tveggja ráða sem þó eru í eðli sínu ólík. Þannig hefur almannavarna- og öryggismálaráð fyrst og fremst stefnumótandi hlutverk á sviði almannavarna á meðan þjóðaröryggisráðið fjallar um þjóðaröryggi með mun víðtækari hætti og nær til virkrar öryggismálastefnu, utanríkismálastefnu og varnarmálasamstarfs auk almannaöryggis.

Í frumvarpinu er einnig að finna ákvæði um trúnað og upplýsingaskyldu, skýrslugjöf og reglugerðarheimild auk viðurlagákvæðis. Þá kemur fram í athugasemdum við lagafrumvarpið að það haggar ekki skuldbindingum Íslands í öryggis- og varnarmálum og hefur ekki áhrif á skiptingu stjórnarmála á milli ráðuneyta í stjórnarráði Íslands.

Virðulegi forseti. Öryggishorfur í Evrópu hafa versnað á undanförnum árum. Staðan er áfram mjög viðkvæm í austanverðri Úkraínu og uppgangur hryðjuverka- og öfgasamtaka heldur áfram. Skemmst er að minnast voðaverkanna í Brussel hinn 22. mars síðastliðinn. Þeir atburðir og fleiri á liðnum mánuðum minna okkur á að öryggi er ekki sjálfgefið og að óskiljanleg ódæðisverk geta átt sér stað nærri okkur í tíma og rúmi. Ástandið í Sýrlandi og við botn Miðjarðarhafs hefur svo orðið til þess að mestu fólksflutningar frá tímum síðari heimsstyrjaldar eiga sér stað nú, sem aftur reyna á innviði Evrópuríkja og samstöðu þeirra. Öryggishorfur á norðanverðu Atlantshafi hafa sömuleiðis breyst á umliðnum árum og hernaðarumsvif í nánasta nágrenni okkar aukist. Í fjárlögum þessa árs er gert ráð fyrir auknum framlögum til varnarmála, m.a. í nafni samstöðuaðgerða Atlantshafsbandalagsins, og aukins stuðnings við þær þjóðir sem halda úti reglubundinni loftrýmisgæslu hér við land. Þessi þróun minnir okkur á þörfina á því að gefa öryggismálum hér heima ríkari gaum, stilla saman strengi og ná sem mestri sátt um meginlínur öryggis- og varnarmála. Verði frumvarp til laga um þjóðaröryggisráð að lögum markar það í raun lokastig vinnu við mótun þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland sem hófst árið 2007 þegar settur var á fót þverfaglegur starfshópur sem skilaði áhættumatsskýrslu sem gerði m.a. að tillögu sinni að mótuð yrði heildstæð stefna í öryggis- og varnarmálum og sett á fót þjóðaröryggisráð. Með skýrsluna og tillögur hennar til hliðsjónar samþykkti Alþingi hinn 16. september 2011 þingsályktunartillögu þáverandi utanríkisráðherra, hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, um að setja á fót þingmannanefnd með fulltrúum allra flokka sem sátu á Alþingi til að vinna tillögur um mótun þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland. Nefndin hóf störf snemma árs 2012 undir formennsku hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur og skilaði tillögum sínum hinn 20. febrúar 2014 ásamt bókunum einstakra þingflokka. Það kom svo í hlut forvera míns í starfi, hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Gunnars Braga Sveinssonar, að móta sjálfa þjóðaröryggisstefnuna á grundvelli tillagna þingmannanefndarinnar og leggja hana fram í þinginu hinn 17. nóvember síðastliðinn í formi þingsályktunartillögu. Eitt fyrsta verk mitt sem utanríkisráðherra var svo að taka þátt í síðari umræðu um þjóðaröryggisstefnuna og sameiginlegt nefndarálit utanríkismálanefndar og vera viðstödd atkvæðagreiðsluna hinn 13. apríl síðastliðinn þegar Alþingi, mótatkvæðalaust eins og áður sagði, samþykkti nýja þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland, þá fyrstu í lýðveldissögunni. Sú samstaða sem myndast hefur um ferli og efni hinnar nýju þjóðaröryggisstefnu er sérstakt ánægjuefni og ber að þakka. Enda er afar mikilvægt að breið sátt ríki um meginlínur öryggis- og varnarmála á hverjum tíma.

Ég vona að sátt og samvinna verði áfram meginstef þeirrar vinnu og umræðunnar sem fram undan er með framlagningu þessa frumvarps til laga um þjóðaröryggisráð, sem unnið hefur verið í góðri samvinnu við innanríkisráðuneytið og forsætisráðuneytið.

Virðulegur forseti. Ein mikilvægasta skylda íslenskra stjórnvalda er að tryggja öryggi borgaranna og stjórnvöld verða að axla þá ábyrgð af ígrundaðri festu. Ógnir og áhættuþættir samtímans kalla á heildstæða nálgun í öryggis- og varnarmálum og skilvirka samhæfingu hlutaðeigandi ráðuneyta og stofnana. Með því frumvarpi sem ég mæli hér fyrir er sett á fót þjóðaröryggisráð sem tryggir virka framfylgd þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland sem Alþingi hefur samþykkt og byggir á virkri utanríkisstefnu, almannaöryggi og varnarsamstarfi við önnur ríki.

Að svo mæltu legg ég til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hæstv. utanríkismálanefndar.