145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

þjóðaröryggisráð.

784. mál
[16:56]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þetta svar. Ég skil hæstv. ráðherra þannig að öll skrifleg gögn verði sett í hefðbundinn skjalavörslufasa eftir að þau eru gefin út þó að á þeim sama tíma ríki trúnaður um þau. Það er alveg rétt að það er mikilvægt að það sé ákveðið trúnaðarákvæði um það sem gerist á fundum en aftur á móti þarf líka að vera smájafnvægi þar á. Mig langar til að það sé alveg skýrt að haldið verði utan um þessi gögn fyrir kynslóðirnar sem eiga eftir að taka við til að skilja samhengið. Þótt það ríki trúnaður núna þá kannski eftir 100–110 ár — ég mundi frekar segja 40–60 ár eins og er annars staðar. Bæði í Norður-Ameríku og í Evrópu eru gögn af þessu tagi gerð opinber hálfri öld síðar til þess einfaldlega að stuðla að ákveðnu gagnsæi. Það er mikilvægt að það komi skýrt fram ef svo verður ekki þar sem þetta er ekki alveg nógu skýrt eins og þetta stendur í frumvarpsgreininni.