145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

þjóðaröryggisráð.

784. mál
[17:18]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Nú get ég tekið undir með tveimur síðustu ræðumönnum, hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur og á undan henni Steinunni Þóru Árnadóttur. Þegar ég hef verið að skoða þetta mál þá hef ég staldrað við svipaðar hugleiðingar um að mér finnst frumvarpið ekki endurspegla nógu vel þá breidd sem verið var að reyna að festa í sessi með afgreiðslu þingsályktunartillögunnar um þjóðaröryggisstefnu. Eitt af því ánægjulega við hana og vinnuna sem á bak við hana lá, og rekur sig þó nokkuð aftur í tímann, var að smátt og smátt tosaðist í gegn breytt nálgun varðandi þjóðaröryggishugtakið. Fyrir því höfðum við ýmis talað árum saman áður en þetta kom. Ég man eftir umræðum býsna langt aftur hér um öryggismál þjóðarinnar og alveg aftur í gamla kaldastríðsfarið þegar eiginlega ekkert var öryggismál nema bara að vera í NATO og undirgangast hernaðarstefnu Bandaríkjanna og allt annað skipti engu máli.

Maður var stundum að reyna að benda á það hér á árunum hvað það væri sem stæði Íslandi nær sem ógn en gamla Rússagrýlan eða eitthvað annað sem einhvers staðar var þá hægt að benda á í heiminum; þegar hún féll var allt orðið vitlaust í Mið-Austurlöndum eða einhvers staðar annars staðar og alltaf jafn ófriðvænlegt í heiminum að margra mati. En það kom nú litla gamla Íslandi ekki mikið við. Mér finnst aðeins glitta hér í að menn séu svolítið að snúa þessu í gamalkunnuga átt með því að hafa þetta þjóðaröryggisráð mjög þröngt, óskaplegan trúnað á öllu sem þar á að gerast og ég kem betur að því.

Förum aðeins yfir reynsluna. Bæði mætti gera það langt aftur til baka litið en líka síðustu sex til átta árin. Hvað er það sem hefur helst ógnað stöðugleika og öryggi manna á Íslandi? Er það ekki efnahagsvá sem var langhættulegasta mál sem að þessari þjóð hefur borið lengi og við erum svo sem enn að súpa seyðið af með ýmsum hætti? Þó að það gangi sæmilega að koma hagkerfinu í gang og furðanlega vel þá berum við enn örin og enn er mikill óstöðugleiki og félagsleg undiralda, pólitísk undiralda, og margt sem má rekja til þeirra áfalla sem við urðum fyrir þegar hagkerfið nánast hrundi ofan í hausinn á okkur eins og spilaborg og fullkomin óvissa skapaðist um framtíð þjóðarinnar í landinu. Nánast hver Íslendingur var í angist og vissi ekkert hvað yrði um hag sinn og sinnar fjölskyldu o.s.frv. Ég hef í ljósi reynslunnar, því miður, og eldri sögu efnahagslegs óstöðugleika og óstjórnar í hagstjórn á Íslandi gjarnan sagt að það hafi nú kannski verið Íslandi hvað skeinuhættast af öllu.

Á ég þó eftir að nefna það sem er nú nálægt okkur líka sem er auðvitað hin dásamlega, gjöfula, en um leið oft erfiða náttúra sem við búum við. Þar er sagan þannig að nánast linnulaust voru stóratburðir á því sviði sem hristu dálítið upp í hlutum. Ofan í efnahagshrunið þurftu stjórnvöld á síðasta kjörtímabili að glíma við eldgos í Eyjafjallajökli 2010 og árið eftir, ef ég man rétt ártölin, eldgos í Grímsvötnum; báðir þessir atburðir voru stórir, höfðu verulegar afleiðingar, sumpart á heimsvísu, að öðru leyti svæsnar afleiðingar staðbundið, öskufallið og allt það. Við fengum óveður, óvenjulega harkaleg óveður eins og óþverraveðrið í september 2012 sem olli miklum fjársköðum, gríðarlegu tjóni á raflínum og kostaði þjóðarbúið heilan helling. Það var svo ekki langt um liðið frá því þegar hún Bárðarbunga fór að minna á sig og talsverð angist var í mönnum í marga mánuði um hvað mundi gerast ef þar yrði stórgos undir jökli. Heilu svæðin á norðausturhorninu voru rýmd; nánast allt vatnasvið Jökulsár á Fjöllum. Síðan gaus blessunarlega úti á leirunum, ekki undir jöklinum, en það var eitt af stærstu gosum í seinni alda sögu Íslands, Holuhraunsgosið. Þannig gæti ég áfram talið.

Þetta er það sem við höfum verið að glíma við. Þetta eru þeir stóru atburðir sem hafa skekið okkur þegar kemur að öryggi í landinu. Ekki hernaðarógn, ekki áhyggjur af því að einhver ráðist að okkur. Aldrei. Við höfum blessunarlega sloppið við hryðjuverk og aðra slíka hluti; og 7, 9, 13, vonandi verður það áfram. Þó að menn hafi á köflum haft áhyggjur af skipulagðri glæpastarfsemi og glæpagengjum þá hefur sem betur fer nokkuð vel tekist til við að verja landið fyrir þeim ófögnuði þó að það láti á sér kræla. En hernaðarógn, hún er fjarlæg, held ég, í hugum þeirra sem fara yfir þetta svona. Ég held að menn sofi miklu rólegri yfir slíkum vangaveltum. Þó að menn séu eitthvað að skakast á yfir Eystrasaltinu, NATO-ríki og Rússar og svona; ætli að það sé þá ekki frekar spurningin um það hvar gýs næst. Verður það Katla gamla eða Bárðarbunga? Hvaða stóratburði gætum við átt í vændum þar? Það hafa komið harkalegir jarðskjálftar ekkert langt til baka litið, árið 2000 og aftur síðar o.s.frv. Margt bendir til þess að Reykjanesskaginn sé býsna kvikur að verða og þar vitum við að við gætum kannski átt í vændum einhverja stóratburði, hvort þeir verða á okkar æviskeiði eða eftir 50 ár eða 200 ár er engin leið að segja. En það þarf ekki flókna röksemdafærslu til að sýna fram á að ef aftur tækju sig upp miklir jarðeldar á Reykjanesskaganum eða við hann gætu það orðið alveg svakalegir atburðir fyrir íslenska þjóð eins og búsetu í landinu og millilandaflugi og öðru slíku er háttað.

Mér finnst það því mjög á skjön við reynsluna og veruleika okkar að hafa ekki einmitt undir þessa breiðu nálgun öryggishugtaksins. Mér finnst að þjóðaröryggisráð og lög um það þurfi og verði að endurspegla það. Ég tek undir þau sjónarmið sem hér hafa komið um það. Það eru ýmsar leiðir færar í því að dekka allar þær víddir sem þar þurfa að vera með. Ég hef lent í því eitthvað tvisvar sinnum með alllöngu millibili að vera í ríkisstjórn þegar verulegar krísur hafa steðjað að eða mjög ófriðlega hefur horft í heiminum eins og í aðdraganda fyrra Íraksstríðsins, eða hvað það nú var, og aftur síðar og setið á fundum í ríkisstjórn þar sem menn fóru yfir það hvað þyrfti að fara yfir og athuga á Íslandi svo við gerðum það sem í okkar valdi stæði til að vera eins vel undirbúin og mögulegt væri. Það voru nú ekki vopnakaup eða slíkir hlutir, frú forseti, sem menn ræddu. Nei, það var spurningin um það hvort nægar olíubirgðir væru í landinu. Það var spurning um það hvernig birgðastaða væri á fóðri og hvernig matvælaöryggi landsins væri tryggt. Hér eftir efnahagshrunið stóð það upp úr hverjum manni: Ja, guði sé lof fyrir landbúnaðinn okkar og fiskinn okkar. Við höfum þá eitthvað að borða. Ræktum meira að segja kartöflur og gætum alveg bjargað okkur í einhverja mánuði þó að erfiðlega gangi. Þannig er nú það.

Varðandi samsetningu þjóðaröryggisráðsins þá vil ég nú bara tala mannamál. Ég skil alveg, og það er eðlilegt í sjálfu sér, að þeir ráðherrar sem fara með mikilvægustu málaflokkana séu þar. En um leið er svolítil hætta á því að þetta verði svona silkihúfuráð. Þarna verði fínir ráðherrar og fínir ráðuneytisstjórar, forstjóri Landhelgisgæslunnar og ríkislögreglustjóri og punktur; þetta er svolítið silkihúfuráð og það vísar svolítið inn í það samhengi sem við höfum hér verið að ræða. Hvar er breiddin? Má ekki gera betur í þessum efnum? Jú, jú, ráðið getur kallað til sín fleiri ráðherra, og þá kemur viðkomandi ráðuneytisstjóri með, embættismenn og aðra starfsmenn ráðuneyta og opinberra stofnana og hlutafélaga o.s.frv.

Eitt vekur athygli mína og það er að Alþingi kemur hvergi nálægt þessu. Jú, jú, vissulega er ákvæði um skýrslugjöf. Er það ekki árleg skýrslugjöf eða eitthvað svoleiðis? Og tillögur ef til stendur að breyta þjóðaröryggisstefnunni. Eðlilega þarf að aðvara Alþingi um það því að það er þar sem hún er mótuð. Og svo segir þarna að þjóðaröryggisráð skuli upplýsa utanríkismálanefnd Alþingis um þau mál sem líkleg eru til að hafa áhrif á þjóðaröryggisstefnuna og framkvæmd hennar. Í sjálfu sér þarf þess nú ekki því að það hvílir rík upplýsingaskylda á stjórnvöldum hvort sem er til utanríkismálanefndar Alþingis og er annars staðar búið um það í lögum. Ég hvet nefndina til að skoða hvort ekki er aðeins hægt að mætast í þessum efnum. Nú er mér vissulega ljóst að kannski er hugsunin að einhverju leyti sú að af því að Alþingi mótar og samþykkir þjóðaröryggisstefnuna sé eðlilegt að svona batterí sé þarna til þess að hafa eftirlit með henni, framkvæma hana og tryggja að það sé gert í samræmi við ákvarðanir Alþingis. Það útilokar að sjálfsögðu ekki að Alþingi sjálft eigi með einhverjum hætti beina aðild að því máli. Það er dálítið skrýtið þegar maður fer að hugsa málið að æðsta stofnun þjóðarinnar skuli alls ekkert eiga neina tengingu sem slíka við þjóðaröryggisráð.

Ég varpa fram þeirri hugmynd hér í fullri alvöru: Hvað með að formaður og varaformaður utanríkismálanefndar eigi sæti í þjóðaröryggisráðinu? Hvað með það? Og þá út frá því gengið að annar tilheyri meiri hlutanum og hinn minni hlutanum? Þeir eru bundnir trúnaði hvort sem er í störfum sínum sem utanríkismálanefndarmenn og svo kæmi þessi 7. gr., um sérstaka trúnaðinn, því til viðbótar. Þar með væri þjóðaröryggisráðið beintengt inn í þessa mikilvægu fagnefnd Alþingis sem þjónar hér í okkar tilviki bæði sem almenn pólitísk utanríkismálanefnd og líka í sjálfu sér sem öryggismálanefnd ef við getum kallað það svo því að við erum ekkert með neitt slíkt tvöfalt eða þrefalt kerfi eins og er hjá þjóðum sem hafa her o.s.frv. Þetta yrðu þá fulltrúar sem væru þarna með beina aðild að vinnu ráðsins. Ég gef ekkert fyrir það að það skapi vandamál þó þarna sætu tveimur fleiri á fundum, þeir þyrftu ekkert að hafa ritarana með sér eins og ráðherrarnir ráðuneytisstjórana. Ég get nefnt þriðja möguleikann sem mér finnst ákaflega nærtækur. Það er að formaður eða forstjóri eða framkvæmdastjóri Landsbjargar eigi sæti í þjóðaröryggisráði. Hvað er það sem við reiðum okkur nánast alltaf á þegar eitthvað bjátar á? Það eru björgunarsveitirnar. Ættum við ekki að reikna með því að það væri fengur að því (Gripið fram í.) fyrir þjóðaröryggisráðið að fulltrúi Landsbjargar, væntanlega þá formaður eða framkvæmdastjóri, sætu þarna? Af hverju ekki? Ætli það stytti nú ekki svolítið boðleiðirnar? Ef menn eru farnir að hafa áhyggjur af einhverju sem þarf að hafa áhyggjur af. Svo fyndist mér líka að það væri hægt að búa um vissa hluti, þannig að það lægi fyrir, hvernig og með hvaða hætti embætti landlæknis eftir atvikum tengdist inn í þjóðaröryggisráðið. Það væri bara innbyggt að um leið og menn hefðu áhyggjur af farsóttum eða einhverju slíku þá væri það sjálfvirkt að svoleiðis aðili kæmi kannski með sínum ráðherra. Mér finnst mega skoða þessa grein miklu betur og held að það eigi að gera á henni breytingar.

Að lokum vil ég segja, frú forseti, að við erum að feta hér inn á nýjar slóðir og það er spennandi og það er gott. Ég er í það heila tekið mjög sáttur með hvernig þessi mál hafa lagst, mótun þjóðaröryggisstefnu. Þó að við séum ekki ánægð með allt þar, að sjálfsögðu, er annað mjög gott. Þessi breiða nálgun á öryggishugtakinu, og önnur viðhorf í þeim efnum en hin gömlu köldu, er mjög jákvæð og í sjálfu sér er ágætt að hafa lög og fasta skipan á því hverjir bera ábyrgð á þjóðaröryggismálum. Það er mjög hliðstætt lagasetningunni sem við erum búin að klára um fjármálastöðugleikaráð. Af því að reynslan kenndi okkur að það er alveg ómögulegt að hafa ábyrgðina óljósa og að hver bendi á annan þegar einhverjar slíkar aðstæður koma upp. Það verður að liggja fyrir mjög skýrt hvar ábyrgðin er og hvar valdmörk liggja og hverjir hafa á herðum sínum það að gera sitt besta í þessum efnum. Þess vegna finnst mér það líka ágætt að þarna sé um þjóðaröryggisráð á grundvelli þjóðaröryggisstefnunnar að ræða. En við skulum reyna að vanda þetta eins og við mögulega getum og best væri að sjálfsögðu að ná samstöðu um þetta. Annað eins ættu menn nú að leggja á sig og það að reyna að ná eins víðtækri og breiðri samstöðu og mögulegt er um lagasetningu af þessu tagi sem væntanlega á að standa til einhverrar framtíðar. Það tókst í aðalatriðum tiltölulega vel með þjóðaröryggisstefnuna og við þurfum að reyna að setja okkur það að það sama eigi við um þetta.