145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

timbur og timburvara.

785. mál
[18:12]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka spurningarnar. Vitaskuld er það svo með bæði lög og reglugerðir að það getur oft verið íþyngjandi fyrir rekstur fyrirtækja. Þarna eru náttúrlega söluaðilar með timbur og timburvörur. Það má segja að eins og víða annars staðar þurfi að fylgja upprunavottorð, hvaðan varan kemur. Þetta er eitthvað sem við sjáum eiginlega á flestum sviðum, fólk vill vita slíkt.

Eins og var farið yfir í ræðunni er það Skógrækt ríkisins sem með fagþekkingu sinni kannar viðinn. Mannvirkjastofnun er sú stofnun ráðuneytisins sem fylgir því eftir.

Til þess að svara spurningunni er það kannski fyrst og fremst að það sé vottað hjá vottunarstofu, hvort þarna sé löglegt efni sem verið er að selja.