145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

stjórn fiskveiða.

786. mál
[18:48]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég og hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir deilum að verulegu leyti þeirri skoðun að gera þurfi gagngerar breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu til þess að tryggja atvinnu, frelsi, nýliðun, jafnræði og byggð í landinu, en núna erum við að fjalla um bráðabirgðaráðstafanir vegna úthlutunar á þessu örlitla hlutfalli, 5% af heildarkvótanum, sem er til ráðstöfunar fyrir utan kvótakerfið fyrir byggðirnar í landinu. Það er nú ekki mjög drjúgur skerfur, en við þetta hefur náttúrlega þjóðin mátt búa um alllanga hríð.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Á meðan ekki hafa náðst í gegn þær róttæku breytingar sem verða að nást í gegn á fiskveiðistjórnarkerfinu, hvernig telur hún þá að þessum hluta, þessum 5%, verði best ráðstafað þannig að það nýtist byggðunum í landinu? Telur hún að þessi 5% séu nægilega stórt hlutfall? Væri ekki ráð að reyna að ná fram stærri prósentu á þessu?

Komið hefur fram hugmynd sem við lögðum fram í sameiningu á síðasta kjörtímabili, um að reyna að koma á leigupotti með aflaheimildir með fast aflamark að lágmarki, 20 þús. tonn. Ég er enn þá hrifin af þeirri hugmynd, a.m.k. á meðan ekki verða stærri breytingar að það sé þá eitthvað sem byggðirnar geti gengið að. Er hv. þingmaður enn þá þeirrar skoðunar eða telur hún hugsanlega rétt að binda þetta við einhverja fasta prósentu af því aflamagni sem til ráðstöfunar er?