145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

stjórn fiskveiða.

786. mál
[18:53]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hv. þingmanni að hlutfallið er allt of lágt. Sjálfri finnst mér það vera gamaldags pólitík að vera alltaf að stýfa úr hnefa einhverja ölmususkammta sem byggðirnar eiga að geta fengið á meðan þetta stóra óréttláta kerfi er við lýði þar sem aðalverðmætin verða til.

Hver er þá afstaða þingmanns? Ég lít svo á að á meðan ekki næst sátt eða nein niðurstaða um breytingar á stóra kerfinu ætti að reyna að leita einhverra leiða til þess að sjá til þess að t.d. nýjar tegundir verði þá settar á markað þannig að menn eigi þess kost að bjóða í þær, og síðan verði búið þannig um strandveiðarnar að þær verði öflugur valkostur, möguleiki fyrir byggðirnar. Í því sambandi velti ég fyrir mér hvort ekki sé ástæða til þess að skera vel upp strandveiðikerfið og reyna að draga úr þeirri miklu sókn sem gagnrýnd hefur verið þar og kannski reyna að koma á meira skikki og meira jafnræði. Við vitum að það er miklu meiri sókn inn á ákveðin svæði strandveiðanna en önnur. Það hefur skapað ákveðið ójafnvægi. Og þó að strandveiðarnar hafi verið að sanna sig sem kostur á síðustu árum og gagnrýnin hafi mikið hljóðnað tel ég að hægt sé að bæta kerfið töluvert. Það væri fróðlegt að heyra hver sjónarmið hv. þingmanns eru hvað það varðar.