145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

stjórn fiskveiða.

786. mál
[18:57]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég þakka fyrir að forseti aðstoði mig við að fá tækifæri til að tjá mig aðeins um þetta mál eins og ég hef jafnan gert þegar mál sem varða sjávarútveginn og byggðir ber á góma. Satt best að segja fannst mér athyglisvert að sjá mælendaskrána tóma lengst af undir framsöguræðu framsögumanns atvinnuveganefndar, öðruvísi mér áður brá þegar sjávarútvegsmál af þessu tagi hafa verið til umræðu dögum saman á Alþingi. Þetta skýrist kannski að einhverju leyti af því að hér er atvinnuveganefnd af góðsemi sinni að skera ráðuneytið og ráðherra niður úr snörunni með því að taka að sér að bjarga málum fyrir í hönd farandi fiskveiðistjórnarár og leggja til meðferð aflaheimildanna sem tekist hefur að toga til hliðar við kerfið undanfarin ár á því eina og sama fiskveiðiári.

Í sjálfu sér held ég að nefndin hafi gert sitt besta og sjálfsagt á grundvelli einhverrar undirbúningsvinnu ráðuneytisins og í samstarfi við það. Hún hefur ekki úr öðru að spila en því svigrúmi sem lögin bjóða upp á í gegnum þá reglu sem þar er innkomin að 5,3% heildarveiðiheimilda í kvótasettum tegundum gangi til hliðaraðgerða í kerfinu. Eftir atvikum geri ég ekki stórar athugasemdir við hvernig atvinnuveganefnd leggur til að með þær verði farið á næsta fiskveiðiári, sérstaklega í ljósi þess að eingöngu er verið að ganga frá málinu til bráðabirgða á því ári.

Í fyrsta lagi vil ég segja að að sjálfsögðu gleður mig að sjá strandveiðarnar áfram með sinn hlut eins og hann hefur aðeins þokast upp undanfarin ár og er áfram 9 þús. tonn, líklega þriðja fiskveiðiárið í röð eða svo, kannski annað til þriðja fiskveiðiárið. En ég tek undir þau sjónarmið sem hafa komið fram að ég hefði verið alveg til í að sjá þetta aðeins aukið og hefði fundist það sanngjarnt í ljósi þess að sú tegund sem ber alveg uppi strandveiðarnar, þ.e. þorskurinn, hefur sem betur fer verið að aukast undanfarin ár nokkuð jafnt og þétt og horfir ágætlega með það áfram á næsta fiskveiðiári á grundvelli ráðgjafar sem við væntum frá Hafró á hverjum næstu dögum. Ég kem betur að því síðar hvað mér finnst að hefði mátt hugleiða í þeim efnum.

Ég tel í öllum aðalatriðum að strandveiðarnar hafi margsannað gildi sitt og það birtist okkur að sjálfsögðu í því að nú þorir enginn að tala fyrir því sjónarmiði að þær verði slegnar af. Ég held að sú umræða sé dáin, en hún fór ekki lágt fyrstu eitt, tvö, þrjú árin sem verið var koma þessu kerfi á og þróa það. Snemma á árinu 2009 voru tillögur mótaðar í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu sem þá hét og ef ég man rétt kynntum við þær einhvern tímann rétt um páskaleytið af hálfu ráðuneytisins og þær tillögur sem gengu til Alþingis á Kaffivagninum úti á Granda og mér er það nokkuð í minni hvað það var gaman. Rökin voru margvísleg, þau sem eru auðvitað sígild og standa fyrir sínu að opna aftur glugga fyrir nýliðun inn í greinina og gera mönnum kleift að sækja sjóinn frá ströndinni á minni bátum, a.m.k. yfir hagstæðasta tíma ársins, sem hefur verið hluti af því að lifa við sjávarsíðuna á Íslandi frá upphafi. Einnig að greiða fyrir vistvænum veiðum smærri skipa þar sem orkukostnaður er lítill og ekki síst að reyna að hleypa aftur lífi í minni og minnstu sjávarbyggðirnar sem margar hverjar voru orðnar ansi eyðilegar hvað umsvif í höfnunum snerti o.s.frv. Í öllum aðalatriðum hefur þetta gengið eftir og gengið vel. Meðferð aflans hefur stórbatnað. Á því voru eðlilega má segja nokkrir misbrestir í byrjun þegar menn voru að koma sér af stað og höfðu kannski takmarkaðan tíma til að undirbúa sig. Það stórbatnaði strax á öðru, þriðja ári og ég hef ekki heyrt lengur umræður sem þá létu aðeins á sér bera að þarna væri eitthvert lélegt hráefni á ferð, þvert á móti. Hún er þögnuð sú umræða. Fiskmarkaðirnir fá að uppistöðu til þennan afla og hann kemur á þeim tíma ársins að stórum hluta þegar verulega er farið að ganga á veiðiheimildir stærri útgerða. Oft var einmitt lítið hráefni á ferð sumarmánuðina fram að upphafi nýs fiskveiðiárs. Ég er að sjálfsögðu líka sammála því að það er alltaf rétt og skylt að skoða reynsluna og vel má hugsa sér ákveðna þróun og ákveðnar úrbætur í þessu kerfi. Það bíður þá þeirra sem takast á við það á komandi árum að útfæra þær, sem og að magnið mætti að mínu mati vel aukast.

Tímans vegna ætla ég ekki út í langar umræður um magnið í hliðarráðstöfununum sem slíkum, 5,3% sem slík. Ég minni bara á að þrátt fyrir allt náðist sá árangur á síðasta kjörtímabili ásamt með mörgu fleiru að toga í áföngum verulega aukið magn út úr hefðbundna kerfinu í hliðarráðstafanir. Svigrúmið þar hefur síðan verið umtalsvert meira, festist svo í sessi að lokum með þessari 5,3% reglu, sem er ákveðin staðfesting á því að orðinn er miklu meiri skilningur á því og þverpólitískur stuðningur að talsverðu leyti á bak við það að kvótakerfið í núverandi mynd sé óframkvæmanlegt vegna byggða- og félagsáhrifa kvótakerfis með frjálsu framsali nema hægt sé að hafa a.m.k. umtalsverðar heimildir til hliðar til þess að mæta skaðlegustu afleiðingum þess ella.

Í öðru lagi vil ég fagna því að byggðafestukvóti sem ég vil kalla svo, kvóti sem fer í gegnum Byggðastofnun til nokkuð varanlegrar ráðstöfunar til smærri byggðarlaga í vanda og til að tryggja þar vinnslu, hefur vaxið myndarlega frá því að hann var upptekinn árið 2013 og tengdur við verkefni sem hrint var af stað, Brothættar byggðir. Í töflu má sjá hvernig þessu er ráðstafað á grundvelli gagna frá Byggðastofnun. Það er farið að muna um þetta. Ætli það sé ekki aldeilis fengur að því fyrir Tálknafjörð/Patreksfjörð, að vera með 400 tonn til ráðstöfunar án þess að þurfa að greiða fyrir það og til nokkurra ára fram undan. Þingeyri 400 tonn, Flateyri 300 tonn, Suðureyri 400 tonn, Drangsnes 150 tonn, Hrísey 250 tonn, Grímsey nýlega 400 tonn, Bakkafjörður 150 tonn, Breiðdalsvík 300 tonn og Djúpivogur 800 tonn, að vísu kannski ekki til eins langs tíma að öllu leyti en þar er þó verið að mæta alveg óvenjulegu höggi sem það byggðarlag fékk á sig þegar Vísir fór þar með allt sitt hafurtask og því miður eiginlega allar veiðiheimildir staðarins með sér, og í reynd á grundvelli sögulegrar reynslu mestallar veiðiheimildir sem byggst höfðu upp á viðmiðunarárunum eftir það á bæði Breiðdalsvík og Djúpavogi í gegnum félagið Búlandstind.

Auðvitað vekur athygli þegar maður fer yfir þetta að Húsavík, sem varð líka fyrir þungu höggi og missti í burtu þær veiðiheimildir sem eftir höfðu staðið þar frá dögum útgerðarfélagsins Höfða og Fiskiðjusamlags Húsavíkur, ein 2.500 tonn, er þarna ekki á blaði. En menn geta svo sem af öðrum ástæðum sagt að mikið sé um að vera á Húsavík um þessa mundir, en þegar maður lítur til sjávarútvegsins sérstaklega væri að sjálfsögðu eðlilegt að eitthvað hefði verið gert til að milda aðeins höggið sem Húsavík varð fyrir þegar Vísir fór sömuleiðis þaðan og út af fyrir sig á Flateyri líka.

Ég tel að byggðafestukvóti Byggðastofnunar hafi í aðalatriðum gengið vel og sannað gildi sitt og sérstaklega og ekki síst að hægt er að hafa aðeins meiri fyrirsjáanleika í kerfinu en áður var mögulegt í árlegum úthlutunum. Þarna er byggðafestuhugsunin svolítið að festast í sessi sem ég er algerlega sannfærður um og hef allan tímann verið að þarf að stórauka í kerfinu og hefði betur verið gert strax við upptöku þess. Ef eins og þriðjungur veiðiheimildanna eftir viðmiðunarárin fram til 1983 hefði verið tengdir byggðarlögunum og ekki framseljanlegir þaðan væri margt öðruvísi um að litast á Íslandi.

Í þriðja lagi nefni ég að ég tel að áfram sé þörf á því að endurskoða meðferð hins hefðbundna byggðakvóta. Það hefur aðeins verið dregið úr vægi hans, en engu að síður sýna úttektir að hann hafi talsverða byggðafestu í för með sér. Ég vefengi það svo sem ekki, en maður er nógu sjóaður í umræðum um þessi mál til að vita að ekki hefur alls staðar tekist að ná góðri sátt um meðferð þeirra veiðiheimilda. Ég held að bæði reiknireglurnar og kannski að einhverju leyti hugsunin eða beitingin á þeim veiðiheimildum þurfi að endurskoðast.

Þá aðeins um hvað mætti hugsa sér að gera í sambandi við þessar hliðarráðstafanir annað. Þar staldrar maður við þá aukningu sem orðið hefur á veiðiheimildum í þorski núna, sem betur fer samfellt undanfarin ár frá líklega 2010 eða svo þegar aflareglan var aftur sett í samband eða reyndar strax á árinu 2009 með stjórnvaldsákvörðunum, eftir smá hliðarspor sem var tekið rétt áður en ríkisstjórnarskipti urðu í landinu í janúar 2009 þegar menn ákváðu allt í einu að fara að veiða 30 þús. tonnum meira af þorski en ráðgjöf og aflareglur sögðu til um. Það tókst að vinda ofan af þeirri stöðu sem það hefði annars þýtt fyrir landið og skammarkrókinn hjá Alþjóðahafrannsóknaráðinu o.s.frv. sem við hefðum umsvifalaust lent í og vorum á leiðinni í. Menn héldu sig við að beita hinni ábyrgu nálgun. Án þess að ég ætli að þakka því allan árangurinn sem síðan hefur náðst við uppbyggingu þorskstofnsins þá er a.m.k. sanngjarnt að ætla að það að menn héldu út hafi átt sinn hlut í því. Menn héldu út og leyfðu þorskstofninum og hrygningarstofninum ekki síst að stækka og við erum að sjá glæsilegan árangur af því núna ár eftir ár.

Nú er svo komið að samkvæmt öllum viðmiðunum er jafnstöðuaflinn í þorski kominn svo vel upp fyrir langtímameðaltal síðustu 10, 15 ára, og svo langt upp fyrir það sem var þegar t.d. sérstakar skerðingar hófust vegna bágs ástands þorskstofnsins, að þeirri skerðingu hefur allri verið skilað til baka til handhafa þorskveiðiheimilda sem hafa þá haldið óbreyttri stöðu, óbreyttri hlutdeild í kerfinu. Á sínum tíma var þetta skoðað meðan ég var í ráðuneytinu í annað hvort skiptið, 2009 eða 2012, 2013, og þá reiknaðist mönnum svo til að allar skerðingarnar væru komnar til baka þegar jafnstöðuaflinn væri kominn í um 230 þús. tonn.

Aukist nú þorskkvótinn umtalsvert um tugi þúsunda tonna og þar upp úr, þá hlýtur að vera eðlilegt að skoða þann möguleika að nýta a.m.k. einhvern hluta þeirrar aukningar til þróunar í kerfinu. Það er hægt að hugsa sér svo margar leiðir í því. Leggja grunn að einhverri leigu, sveigjanleika í kerfinu, jafnvel svæðisbundna leigupotta, sérstaklega sniðna að þörfum nýrra og smærri útgerðaraðila. Nota eitthvað af þessu í uppbót á strandveiðarnar meðan veiðiheimildarnar væru yfir einhverjum tilteknum skilgreindum mörkum o.s.frv.

Ég tel að enn standi eftir að það væri auðvitað æskilegt að menn gætu unnið sig út úr rækju- og skeluppbótunum. Það er dálítið snúið að vera með svo gamalt uppbótarkerfi inni í þessu þegar svona langt er um liðið. Mér er alveg ljóst mikilvægi þess fyrir þá sem urðu fyrir áfallinu á sínum tíma, það er ekki hægt bara að strika þetta út allt í einu, en auðvitað eru fordæmi fyrir því að slík tímabundin stuðningskerfi eða slíkar stuðningsaðgerðir séu einfaldlega leystar út úr kerfinu með einhverri lágmarksúthlutun varanlegra heimilda í staðinn. Það er að sjálfsögðu ein fær leið í þessum efnum. Þar með losnuðu menn við að lesa svona gamla fortíð alltaf endalaust inn í bótum af þessu tagi.

Varðandi málin almennt þá náðist þessi árangur á síðasta kjörtímabili. Menn deila um það hvort sú ríkisstjórn hafi uppskorið eitthvað í sjávarútvegsmálum. Jú, það gerði hún. Það stendur eftir að strandveiðar komust á og þær eru orðnar fastar í sessi þótt magnið mætti vera meira.

Í öðru lagi er um talsvert meira magn veiðiheimilda nú til ráðstöfunar árlega í hliðarráðstafanir í kerfinu. Það var einmitt það sem gerðist á árunum frá hruni og næst þar á eftir að magnið fór vaxandi.

Í þriðja lagi kom sú ríkisstjórn á fyrra kjörtímabili á veiðigjöldum sem núverandi ríkisstjórn hefur að vísu af miklu örlæti lækkað, en eftir standa þau þó miklu, miklu hærri en þau höfðu áður sögulega séð verið talin.

Núverandi ríkisstjórn hefur hins vegar ekkert gert, herra forseti, nema það eina að lækka veiðigjöld á útgerðina af miklu örlæti. Að öðru leyti hefur hún ekki sett mark sitt á málsmeðferð á þessu sviði á einn eða neinn hátt. Hún hefur gefist upp. Svo hleypur hún á náðir atvinnuveganefndar til að framlengja óbreyttar ráðstafanir árlega í hliðarkerfinu. Það er allt og sumt.