145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

stjórn fiskveiða.

786. mál
[19:36]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fína ræðu. Það er hressandi að komast aftur í þann gír að ræða sjávarútvegsmál og breytingu á fiskveiðistjórnarkerfinu. Þessi umræða hefur ekki verið mikil síðustu þrjú ár frá því að við tókum góða umræðu um það á síðasta kjörtímabili og mikil vinna var lögð í að endurskoða kerfið. Því miður var uppskeran ekki alveg eins og við áttum von á þótt hún yrði vissulega uppskera sem við megum vera ánægð með, við opnuðum glufu inn í kerfið með strandveiðum og nokkrum öðrum breytingum sem ber að fagna.

Hv. þingmaður kom áðan inn á aðskilnað veiða og vinnslu og útgerðar án fiskvinnslu og öfugt. Við vitum að til er fiskvinnsla án útgerðar og hún hefur talað mjög fyrir því að þó að ekki væri nema ákveðið hlutfall afla sem færi á markað mundi það breyta öllu fyrir slíka fiskvinnslu. Hún gæti þá bæði verið samkeppnisfær við aðra útgerð í landinu sem er líka með fiskvinnslu á sinni hendi til þess að sinna mörkuðum og haft möguleika á að geta alltaf skaffað hráefnið. Það hefur verið talað um að kannski 30% af lönduðum afla færi að lágmarki á markað. Það hefði líka áhrif á kjör sjómanna sem oft eru á einhverju lágmarksverði miðað við lágmarksverð sem fiskvinnsla og útgerð á sömu hendi greiðir til sjómanna í uppgjöri þeirra. Ég vildi heyra í hv. þingmanni um þetta.