145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

stjórn fiskveiða.

786. mál
[19:38]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum andsvarið. Já, það er hressandi að fá að koma hér og ræða aðeins sjávarútvegsmál eftir nokkurt hlé.

Ég hef verið áhugasöm um að skilja milli veiða og vinnslu eins og þingmaðurinn nefndi. Það getur haft úrslitaþýðingu að fiskvinnslan sé alltaf í færum til að geta boðið í afla til vinnslu. Að hún geti skaffað hráefni, því að það er hráefnið, það að leggja upp á staðnum, sem skiptir máli upp á atvinnuna í byggðarlaginu. Ég man ekki betur en við hv. þingmaður legðum fram tillögu á síðasta kjörtímabili einmitt um það eða hefðum viðrað hugmyndir um að gert yrði ráð fyrir því að fast hlutfall færi í þetta. Ég held að það gæti orðið mjög til bóta.

Síðan kom ég ekki mikið inn á ýmislegt annað í ræðu minni sem ég hefði viljað nefna eins og t.d. strandveiðarnar, að búa vel að þeim. Það er kannski það jákvæðasta sem hefur gerst í sjávarútvegsmálum um alllanga hríð. Þar átti hv. þingmaður og núna sitjandi hæstv. forseti, Steingrímur J. Sigfússon, drjúgan hlut að máli og mikið frumkvæði sem er þakkarvert, því að þetta bjargaði bókstaflega ásýnd byggðanna yfir sumartímann. Það fann maður svo vel fyrst eftir að strandveiðunum var komið á.

Ég mundi telja að það væri mjög mikils virði að efla þennan þátt og búa vel um kerfið, en það má laga það. Ég held að það þurfi aðeins að hagræða umbúnaði strandveiðanna þannig að þær geti nýst enn þá betur en verið hefur.