145. löggjafarþing — 120. fundur,  30. maí 2016.

rannsókn á þætti Landspítalans í umdeildri barkaígræðsluaðgerð.

533. mál
[15:05]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Elín Hirst) (S):

Virðulegi forseti. Ég hef lagt fram fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra til munnlegs svars sem hér fer á eftir um rannsókn á þætti Landspítalans í umdeildri barkaígræðsluaðgerð.

Spurning mín til ráðherra er eftirfarandi:

Telur hann æskilegt að gerð verði óháð rannsókn á þætti Landspítalans í meðferð sjúklings sem undirgekkst þessa barkaígræðsluaðgerð árið 2011? Ef svo er, telur ráðherra að hér á landi séu starfandi læknar sem engra hagsmuna hafi að gæta og séu færir um að rannsaka málið?

Hér er um að ræða aðgerð sem vakti heimsathygli á sínum tíma þegar hún var gerð 2011. Sjúklingurinn sem um ræðir var 36 ára Erítreubúi sem var búsettur á Íslandi og var við nám við Háskóla Íslands. Hann leitaði til lækna á Landspítalanum og kom í ljós að hann var með krabbamein í hálsi. Var æxlið af þeirri gerð að það var farið að þrengja að öndunarvegi hans og ljóst að fjarlægja þyrfti það og jafnvel hluta af barkanum sem er auðvitað öllum lífsnauðsynlegur.

Þegar íslenskir læknar fóru að ráða sínum ráðum komust þeir að því að við Karólínska háskólasjúkrahúsið í Svíþjóð starfaði læknir sem var að undirbúa mikla tímamótaaðgerð, að þeim var sagt, þ.e. að skipta um barka í manneskju og setja í stað þess barka sem tilheyrir manninum sjálfum plastbarka sem hafði verið undirbúinn sérstaklega fyrir aðgerðina með því að koma stofnfrumum inn í barkann. Átti slíkur barki, eins og ég skildi þetta sem leikmaður, að starfa eðlilega eins og að hann væri náttúrulegur hluti líkamans.

Það sem gerðist síðar var að sjúklingurinn lést og það sem gerðist enn síðar var að í ljós kom að sá rökstuðningur sem var fyrir aðgerðinni stóðst ekki og þær vísindalegu tilraunir sem sá sem fór fyrir aðgerðinni sagðist hafa gengist fyrir höfðu alls ekki farið fram.