145. löggjafarþing — 120. fundur,  30. maí 2016.

rannsókn á þætti Landspítalans í umdeildri barkaígræðsluaðgerð.

533. mál
[15:08]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Elín Hirst hefur beint til mín munnlegri fyrirspurn um hvort ég telji æskilegt að gerð verði óháð rannsókn á þætti Landspítalans í meðferð sjúklings sem undirgengst umdeilda barkaígræðslu árið 2011, og ef svo er, hvort ég telji að hér á landi séu starfandi læknar sem engra hagsmuna hafi að gæta og séu færir um að rannsaka málið.

Samkvæmt upplýsingum sem velferðarráðuneytið hefur aflað frá yfirvöldum í Svíþjóð eru nú í gangi þrjár viðamiklar rannsóknir sem tengjast beint starfsemi ítalska læknisins Macchiarini við Karólínska sjúkrahúsið í Stokkhólmi. Ein þerra er á vegum Karólínska Intistutet og beinist að því hvort fylgt hafi verið reglum um vísindarannsóknir og hvort niðurstöður um barkaígræðslur sem birtar hafa verið í vísindatímaritum hafi mögulega verið falsaðar. Önnur rannsókn er framkvæmd af sænskum yfirvöldum, þ.e. Stockholms läns landsting, og varðar beint starf og starfshætti umrædds læknis við Karólínska sjúkrahúsið. Hluti af þeirri rannsókn fór fram hér á landi í byrjun apríl og tengdist meðferð þess sjúklings sem undirgekkst barkaígræðslu á Karónlínska sjúkrahúsinu árið 2011 og var í meðferð á Landspítalanum, bæði fyrir og eftir þá meðferð.

Velferðarráðuneytið aðstoðaði sænsku rannsóknarnefndina við að ná til þeirra viðmælenda sem nefndin hafði valið að ræða við, en þeir komu bæði frá Landspítala og Sjúkratryggingum Íslands. Ráðuneytið útvegaði nefndinni einnig aðstöðu þar sem viðtölin fóru fram. Rannsóknarnefndin bauð Íslendingum að óháður aðili yrði viðstaddur viðtölin þannig að ef eitthvað kæmi fram í þeim sem sá aðili teldi að þyrfti nánari skoðunar við gætu Íslendingar farið í nákvæmari úttekt á því. Ég ákvað að þiggja það boð og var lögfræðingur í velferðarráðuneytinu viðstaddur þegar viðtöl voru tekin.

Þriðja rannsóknin er svo lögreglurannsókn í Svíþjóð á barkaígræðsluaðgerðum Macchiarinis við Karónlínska sjúkrahúsið.

Þá hef ég fengið yfirlit yfir níu aðrar rannsóknir sem nú eru í gangi varðandi starfsemi viðkomandi læknis sem hafa á einn eða annan hátt leitt af umfjöllun um umrædda barkaígræðslu. Þær rannsóknir ná einnig til starfa Macchiarinis á Ítalíu, í Bandaríkjunum og í Rússlandi.

Þá er rétt að taka fram að þann 31. mars síðastliðinn barst mér bréf frá Siðfræðistofnun Háskóla Íslands eftir fund minn með fulltrúum stofnunarinnar. Þar áréttaði stofnunin mikilvægi þess að sett yrði á fót sérstök rannsóknarnefnd í málinu. Að mati Siðfræðistofnunar munu þær rannsóknir sem að ofan greinir ekki taka sérstaklega á þætti íslenskra stofnana og aðkomu þeirra að málinu. Stofnunin bendir einnig á að þær hafi ekki það umboð sem nauðsynlegt sé til að nálgast gögn, svo sem sjúkraskrár.

Ég tel rétt að Alþingi taki til skoðunar hvort ástæða sé til að koma á fót rannsóknarnefnd, samanber lög um rannsóknarnefndir, nr. 68/2011, til að rannsaka aðkomu íslenskra stofnana að málinu. Í greinargerð lagaskrifstofu Alþingis frá janúar 2015 segir að lög um rannsóknarnefndin geri almennt ráð fyrir því að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd leggi fram tillögu til þingsályktunar um skipun rannsóknarnefndar. Unnið er á mínum vegum að minnisblaði um málið sem sent verður stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd á næstunni og hún beðin um formlega afstöðu til málsins.

Öllum er ljóst að við búum í litlu samfélagi. Við þekkjum öll kosti þess og einnig helstu galla. Hv. þingmaður spyr hvort hér á landi séu starfandi læknar sem hafi engra hagsmuna að gæta við rannsókn þessa máls. Ég get ekki svarað því hér. Fyrst þarf að liggja fyrir hvaða sérþekkingu þarf til til að taka þátt í slíkri rannsókn og hvort einhverjir læknar sem starfa hér á landi hafi þá þekkingu. Síðan þarf að meta hæfi þeirra á grundvelli hæfisreglna stjórnsýslulaganna.