145. löggjafarþing — 120. fundur,  30. maí 2016.

rannsókn á þætti Landspítalans í umdeildri barkaígræðsluaðgerð.

533. mál
[15:14]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Elín Hirst) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni kærlega fyrir þetta andsvar og eins vil ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra Kristjáni Þór Júlíussyni fyrir greinargóð svör. Ég er sammála því sem hefur komið fram í máli annarra, og ráðherra sérstaklega, að það skiptir miklu að þetta mál verði borið undir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og hún beðin um að taka afstöðu til þess hvort ekki er ástæða til að fram fari rannsókn hér á landi á þessu máli, þ.e. að skipuð verði rannsóknarnefnd í því eins og Siðfræðistofnun Íslands hefur rætt um í bréfi til ráðherra ef ég skil það rétt. Þetta er greinilega stórmál, það er það í Svíþjóð og líka á heimsmælikvarða. Það er jafn stórt mál eftir að upp komust svik um síðir og það var þegar verið var að hrósa viðkomandi aðilum fyrir þessa tímamótaaðgerð. Þess vegna er svo mikilvægt að brugðist sé við af festu og ákveðni þegar í ljós kemur að ekki er allt sem sýnist í þessu. Eins og fram hefur komið eru þrjár viðamiklar rannsóknir í gangi á málinu í Svíþjóð, þar á meðal lögreglurannsókn, og fylgst með því hvort vísindarannsóknir hafi verið falsaðar í þessu máli.

Hvað okkur snertir er þetta sjúklingur á vegum Íslands, sjúklingur Landspítala – háskólasjúkrahúss, sem treystir íslensku heilbrigðiskerfi og það er afar mikilvægt að hér fari fram opin og gagnsæ athugun á því hvað var raunverulega þarna á ferðinni.