145. löggjafarþing — 120. fundur,  30. maí 2016.

rannsókn á þætti Landspítalans í umdeildri barkaígræðsluaðgerð.

533. mál
[15:16]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Já, ég þakka sömuleiðis þá umræðu sem hér hefur átt sér stað og fyrirspyrjanda sérstaklega, hv. þm. Elínu Hirst. Þá vil ég við lok umræðunnar ítreka það sem ég sagði í ræðu minni í fyrra svari, að ég tel rétt að Alþingi taki ákvörðun um næstu skref þessa máls, samanber lög um rannsóknarnefndir. Ég tek sömuleiðis undir það með fulltrúum Siðfræðistofnunar sem segja í því erindi sem ég gerði hér að umtalsefni til ráðuneytisins að þetta veki upp bæði faglegar og siðferðislegar spurningar. Það er eðlilegt að fá svör við slíkum spurningum, en jafnframt er það vandaverk í litlu samfélagi þar sem tengsl eru mjög náin og við höfum tiltölulega fáar stofnanir undir í þessum efnum og tiltölulega fámennan hóp einstaklinga sem tengjast verkum sem þessum. Þá er það vandaverk að vinna að rannsókn slíkra mála, en ég tel eindregið að það verði að gera af virðingu fyrir öllum aðilum máls og af festu og öryggi með það að leiðarljósi að leiða fram hið sanna og rétta í málinu til þess að við getum lært af þeim mistökum sem kunna að hafa verið gerð.