145. löggjafarþing — 120. fundur,  30. maí 2016.

þjónusta við börn með geðvanda eða fjölþættan vanda.

730. mál
[15:27]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Páll Valur Björnsson) (Bf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Svokölluð snemmtæk íhlutun er lykilatriði. Það er viðurkennt af öllum fræðimönnum sem starfa á þessu sviði. Öllum má ljóst vera að lífsgæði allra aðstandenda þessara barna eru í húfi. Mörg dæmi eru um að foreldrar séu lengi frá vinnu vegna geðheilbrigðisvanda barna sinna og eins eru mörg dæmi um að foreldrar verði að hætta að vinna til þess að sinna barni sínu eða er hreinlega sagt upp vinnu. Þeir sem lenda í því geta ekki skapað verðmæti fyrir samfélagið og þurfa jafnvel að fá stuðning og bætur til að framfleyta sér. Fjárhagslegt tap bætist því ofan á allt annað sem fjölskyldur og aðstandendur þessara barna þurfa að ganga í gegnum. Það er ekki einungis tap þeirra sem í þessu standa heldur mikið fjárhagslegt tap fyrir samfélagið allt. Afar oft heyrist sú skýring á ástandinu sem lýst er í skýrslu Ríkisendurskoðunar að fé skorti til að bregðast við og gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegt er að gera. Mjög mikil lífsgæði hlutaðeigandi barna og aðstandenda eru í húfi. Það er miklu meira en næg ástæða til að vanda þjónustuna mjög mikið. Allt bendir til þess að ef við gerum það ekki vel verði það mikil fjárhagsleg sóun fyrir samfélagið allt. Á það verða stjórnvöld að leggja vandað mat í beinhörðum peningum og gera almenningi grein fyrir því, sem greiðir fyrir þá sóun með skattfé sínu.

Ég skora á hæstv. ráðherra að beita sér fyrir því að lagt verði mat á þjóðhagslegan ávinning af þjónustu við börn með geðvanda eða fjölþættan vanda þannig að séð verði hversu mikill ávinningurinn er af því fyrir allan almenning að leggja nægilegt fé í að gera þetta vel og veita ungmennum og börnum vandaða og næga þjónustu strax og ljóst er að þau þurfa á henni að halda.

Herra forseti. Ég vil líka minna á hversu mikilvægt er að safna og varðveita tölulegar upplýsingar almennt um velferð barna til að hægt sé að fylgjast með þróun, bæta verklag og þjónustu við börn. Best væri ef ábyrgð á geymslu opinberra tölulegra upplýsinga um velferð barna væri á einni hendi og þær nýttar til að bæta viðhorf til barna almennt og þrýst á um að bæta þjónustu við börn í vanda. Það er lykilmál. Ég tek undir með hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni; þetta á að vera eitt af forgangsmálum í heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Málið er grafalvarlegt.