145. löggjafarþing — 120. fundur,  30. maí 2016.

þjónusta við börn með geðvanda eða fjölþættan vanda.

730. mál
[15:29]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka umræðuna og þær athugasemdir sem hafa verið bornar fram. Ég þakka sömuleiðis hv. málshefjanda upptakt hans og brennandi áhuga á málaflokknum. Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem við eigum orðastað, ég og hv. þm. Páll Valur Björnsson, um þessi efni og ég kann afskaplega vel að meta það þann áhuga sem hv. þingmaður hefur á þessum hluta heilbrigðismálanna. Ég kýs að skilja samþykki þingsins á geðheilbrigðisstefnu hér fyrir ekki löngu síðan, sem varð til á grundvelli þingsályktunartillögu sem þingmenn báru fram undir forustu hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, ég kýs að túlka þá niðurstöðu sem birtist síðan í afgreiðslu þingsins á geðheilbrigðisstefnunni til næstu ára sem áherslu í þá veru að setja þennan málaflokk í forgang. Ég fagna því mjög. Það verður alltaf, eðlilega og eðli málsins samkvæmt, unnt að kalla eftir upplýsingum eða tillögum til frekari úrbóta o.s.frv. en ég lít svo á að við höfum stigið mjög merkilegt skref. Við erum að fikra okkur inn í annan veruleika. Þessum málum hefur aldrei fyrr í sögu okkar verið skipað í einhvern einn ákveðinn farveg og þegar þessi grunnur er kominn er svo gott að geta byggt ofan á hann og bætt við á þeim sviðum þar sem við stöndum hvað veikast fyrir.

Ég fagna enn og aftur umræðuna og skynja að það er mikill vilji þingsins til að taka á í þessum efnum.