145. löggjafarþing — 120. fundur,  30. maí 2016.

viðskipti við Nígeríu.

716. mál
[15:31]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Valgerður Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég hef áður komið í þennan ræðustól til þess að ræða um málefni þurrkfiskútflytjenda á Íslandi. Það er að verða kominn býsna langur tími sem verið hefur stopp að mestu leyti í innflutningi á hertum þorskhausum og beinhryggjum úr þorski til Nígeríu. Þetta er í rauninni mjög alvarlegt mál vegna þess að undir liggja 450–500 störf. Yfir 20 fyrirtæki á Íslandi hafa þessa starfsemi með höndum. Þessi starfsemi skapar tekjur inn í þjóðarbúið upp á 15–20 milljarða. Þetta eru því mikilvæg fyrirtæki, bæði fyrir Íslendinga og eins fyrir Nígeríubúa vegna þess að þessar afurðir skila inn til þeirra gríðarlega verðmætum próteingjöfum í fæðu fyrir nígeríska þjóð.

Þeir sem eru í þessum útflutningi kaupa jafnframt mikla orku. Þeir nota flutningsleiðir sem skila tekjum í þjóðarbúið. Það er alveg ljóst að þetta er í raun eini markaðurinn fyrir þennan útflutning og hann er mikilvægur vegna þess að þarna er verið að fullnýta fiskinn. Það er að vísu einhver hreyfing núna á málinu og vonandi mun hæstv. utanríkisráðherra gera okkur grein fyrir stöðu þess.

En ég spyr: Mun ráðuneytið skipuleggja ferðir sendinefndar til Nígeríu til að ræða þá alvarlegu stöðu sem uppi er vegna innflutningshafta á þurrkuðum fiskafurðum frá Íslandi, sem hafa nú þegar haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir íslensk fiskverkunarfyrirtæki? Ef svo er, hvenær má þess þá vænta að sendinefnd fari til Nígeríu?

Í öðru lagi: Geta stjórnvöld með einhverjum hætti komið að því að efla innflutning á vörum frá Nígeríu? Eru einhverjir möguleikar á vöruskiptum milli landanna á meðan gjaldeyrisskortur hrjáir nígerískt samfélag?

Í þriðja lagi: Hefur sendiherra Ísland afhent nígerískum yfirvöldum trúnaðarbréf sitt nú þegar? Það skiptir miklu máli fyrir markaðinn að við séum með sendiherra af hálfu Íslands í Nígeríu.