145. löggjafarþing — 120. fundur,  30. maí 2016.

viðskipti við Nígeríu.

716. mál
[15:40]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Forseti. Ég vil þakka hv. þm. Valgerði Gunnarsdóttur fyrir að taka upp þetta mál. Það eru gríðarlega miklir hagsmunir í húfi og sorglegt að horfa upp á að fólk hafi misst vinnuna út af því pólitíska ástandi sem hefur ríkt í Nígeríu, sem má því miður rekja til falls á heimsmarkaðsverði á olíu. Við horfum upp á gríðarlega mörg fyrirtæki úti um allt land og ég nefni Fiskmiðlun á Dalvík sem eitt stöndugt fyrirtæki sem hefur reitt sig á þennan markað og er í vandræðum.

Um leið vil ég fagna orðum hæstv. utanríkisráðherra sem kom með þær yfirlýsingar að hún hygðist fara til Nígeríu og ræða við þarlend stjórnvöld. Ég tel afar brýnt að slík ferð verði farin. Ég geri mér grein fyrir því að reynst hefur afar erfitt að komast fyrr, en því fyrr þeim mun betra.

Ég fagna bæði umræðunni sem og jákvæðum viðbrögðum hæstv. utanríkisráðherra.