145. löggjafarþing — 121. fundur,  30. maí 2016.

almennar stjórnmálaumræður.

[19:38]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Ég heilsa ykkur nú á fögru vori eftir tíðindamikinn þingvetur. Fram undan eru kosningar og þar mun kjósendum gefast færi á að velja á milli ólíkra kosta um framtíð Íslands. Á þessu kjörtímabili höfum við jafnaðarmenn unnið að því að skapa á Íslandi samfélag þar sem fólk finnur fyrir raunverulegu frelsi, óháð efnahag og aðstæðum, þar sem allir geta menntast sem vilja, þar sem heilbrigðisþjónusta er góð og ódýr og þar sem allir eiga öruggt þak yfir höfuðið. Því að þetta er grunnurinn að allri velsæld, þetta er forsenda frumkvöðlastarfsemi, aukinnar framleiðni, öflugrar menningar og góðra starfa.

Við höfum lagt til hækkun barnabóta, hækkun greiðslna í fæðingarorlofi, betri húsnæðisstuðning við fólk á meðaltekjum og lágum tekjum, lækkun á greiðsluþátttöku almennings í heilbrigðisþjónustu og að framhaldsskólarnir verði áfram opnir fyrir alla án tillits til aldurs.

Við höfum líka lagt til að lífeyrisþegar njóti sömu lágmarkskjara og venjulegt launafólk og að mannréttindi fatlaðs fólks verði fullgild að lögum.

Við höfum lagt til að atvinnugreinar sem nýta sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar greiði fyrir það eðlilegt gjald, að samgöngur og fjarskipti verði efld um allt land og að ferðamenn greiði fyrir þá aðstöðu sem þarf til að hægt sé að taka á móti þeim með öryggi að leiðarljósi.

Við höfum lagt til að Ísland bjóði fleira flóttafólk velkomið. Landið sem við viljum byggja er staður þar sem við fögnum fjölbreytni og gefum öllum annað tækifæri ef eitthvað bregður út af.

Áherslur ríkisstjórnarinnar hafa gengið í þveröfuga átt. Barnabætur og fæðingarorlof rýrna stöðugt og færri og færri njóta. Hið sama á við um vaxtabætur. Möguleikar til framhaldsnáms hafa verið þrengdir og frekari fyrirætlanir sjást í þá veru. Ríkt fólk á eitt að fá að taka erlend lán á lágum vöxtum þótt við eigum öll að bera áhættuna af slíkum lántökum. Auðlindagjöld hafa verið lækkuð, skattar á mat og nauðsynjar hækkaðir og skattbyrði flutt af þeim best stæðu til þeirra sem minnst hafa milli handanna. Eitt hefur einkennt allar skattbreytingar ríkisstjórnarinnar á þessu kjörtímabili og það er að fólk með undir 250.000 kr. hefur alltaf setið eftir. Ef þessi stjórnarstefna fær að ríkja áfram verður Ísland öðruvísi eftir tíu ár. Við munum þá búa við minni almenna velsæld, meira bil milli ríkra og allra hinna, lægra menntunarstig og aukna misskiptingu menntunar eftir efnahag.

Atburðir síðustu mánaða hafa líka sýnt okkur mikilvægi þess að breyta leikreglunum um tengsl hins opinbera og áhrifamanna í viðskiptalífinu. Allan lýðveldistímann hafa vel tengdir viðskiptamenn auðgast vegna þess að þeir hafa notið aðgangs að takmarkaðri aðstöðu eða ríkiseignum. Nú hefur komið í ljós að þessir vildarvinir hafa ekki einu sinni hirt um að borga hér skatt af fengnum. Þetta er ein ástæða fyrir því að hér eru laun lægri en í grannlöndunum.

Á Íslandi á að vera heilbrigt viðskiptaumhverfi og bankar sem þjóna fólki en ekki fjármagninu. Höfuðáhersla efnahagslífsins á að vera á að auka framleiðni en ekki að skapa nýjar bólur til að gefa útvöldum færi á að auðgast. Það er forsenda hærri launa og betri kjara. Við getum ekki búið við það til langframa að fólk finni sér frekar tækifæri í nágrannalöndunum en hér á landi, eins og raunin hefur verið undanfarin missiri þrátt fyrir efnahagslegan uppgang hérlendis. Það er engin framtíð fyrir Ísland í því að skólagengið fólk með ung börn flytji af landinu og að við flytjum þess í stað inn fólk erlendis frá til að vinna láglaunastörf.

Virðulegi forseti. Það skiptir máli hverjir stjórna, en það skiptir líka máli óháð því hverjir stjórna að þjóðin afsali sér ekki því úrslitavaldi sem hún hefur til stjórnvalda og lúti þögul óstjórn og röngum ákvörðunum. Að því leyti hefur orðið grundvallarbreyting á íslensku samfélagi. Þjóðin getur veitt ríkisstjórnum aðhald og knúið fram aðgerðir og svör. Hún gerði það með fjöldamótmælum í apríl og þess vegna verður kosið í haust. Þess vegna sagði líka forsætisráðherra Íslands af sér, í fyrsta skipti í lýðveldissögunni. Þjóðin setti ríkisstjórninni líka stólinn fyrir dyrnar fyrir tveimur árum þegar ríkisstjórnin vildi draga umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu til baka og svíkja loforð um að leggja slíka ákvörðun fyrir þjóðina. Þess vegna gafst ríkisstjórnin upp á að draga umsóknina til baka, þess vegna er aðildarumsóknin enn í gildi og þess vegna mun nýr þingmeirihluti geta lagt til við þjóðina að þráðurinn í aðildarviðræðum verði tekinn upp að nýju.

Þetta er nýr veruleiki. Umboð næsta þings og næstu ríkisstjórnar verður takmarkaðra en það hefur verið undanfarna áratugi. Fram undan er síðan að breyta stjórnmálunum til samræmis og finna fleiri farvegi fyrir þjóðina til að hafa úrslitaáhrif í stórum málum.

Virðulegi forseti. Þjóðin sýnir í viðhorfskönnunum að hún er óþreyjufull og vill skýra sýn á framtíðina. Fylgissveiflur eru fordæmalausar. Við í Samfylkingunni skiljum skilaboðin sem okkur hafa verið send og þess vegna er þetta í síðasta sinn sem ég ávarpa ykkur sem formaður Samfylkingarinnar úr þessum ræðustól. Við munum mæta til leiks í haust með nýja liðsskipan, vopnuð hinum sígilda leiðarvísi sem reynst hefur vel, samfélagssýn norrænnar jafnaðarstefnu sem boðar ábyrgt, opið markaðshagkerfi, einstaklingsfrelsi, efnahagslegan stöðugleika og félagslegt réttlæti.

Við verðum ekki sögulaus flokkur. Við erum stolt af afrekum við stjórn landsins á örlagatímum og Samfylkingin ein hefur staðið að öllum þeim ákvörðunum sem þurft hefur að taka til að koma Íslandi á réttan kjöl — hvort sem við vorum í stjórn eða stjórnarandstöðu. Við sveiflumst ekki eftir gusti tíðarandans og segjum ekki eitt í dag og annað á morgun.

Við þekkjum líka mætavel þau mistök sem við höfum gert, höfum gengist við þeim og erum fyrir vikið ólíklegri en aðrir til að gera þau á nýjan leik. Það er ekki nóg að meina vel, ef leiðarvísinn skortir. Jafnaðarstefnan er sú rót sem Samfylkingin sækir til næringu og styrk. Markmið jafnaðarstefnunnar er að beita ríkisvaldinu í almannaþágu, gefa öllum tækifæri, auka vald fólks yfir eigin lífi, styðja þá sem minnst hafa til sjálfstæðis og tryggja frelsi fólks undan kúgun feðraveldis, auðs eða ríkisvalds. Jafnaðarstefnan ógnar kyrrstöðu og hún ógnar sérhagsmunum því að hún krefst almennra leikreglna, ávallt og einatt. Hún ógnar möguleikum ráðandi afla til að skammta sér aðstöðu, hygla vildarvinum og deila með sér völdum. Þess vegna hefur það alltaf verið og er enn örþrifaráð valdamanna að spyrða alla þá sem ógna óbreyttu ástandi við Samfylkinguna. Við tökum því hins vegar sem hrósi.

Virðulegi forseti. Flest hefur okkur tekist vel í glímunni við hrunið og eftirleik þess. Efnahagslífið er í blóma og allar forsendur til að Ísland eigi bjarta framtíð. En stjórnmálin og þjóðmálaumræðan utan þessa húss hafa markast af harðvítugum átökum og óvægnari orðræðu en dæmi eru um. Samt hefur verið víðtæk samstaða á vettvangi stjórnmálanna um mikilvægustu ákvarðanirnar frá hruni og enn erum við saman að vinna að góðum málum. Nýjasta dæmið er ný frumvörp um húsnæðismál sem vonandi verða að lögum á næstu dögum. Við í Samfylkingunni höfum lengi kallað eftir aðgerðum til úrlausnar þessa brýna vanda. Okkur hefur oft þótt biðin ærið löng og teljum svo sem enn ekki nógu langt gengið að öllu leyti. En við munum standa með verkalýðshreyfingunni og ríkisstjórnarflokkunum að þessum framfaraskrefum.

Þetta fordæmi á að verða okkur öllum hvatning til að finna nýjan takt í því hvernig við tölum saman því að þrátt fyrir allt getum við náð saman um svo margt okkur öllum til heilla. Við skulum einsetja okkur að byggja betra land saman.

Takk fyrir veturinn. Gleðilegt sumar.