145. löggjafarþing — 121. fundur,  30. maí 2016.

almennar stjórnmálaumræður.

[19:59]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Það var á svona fallegum vordegi fyrir um tveimur áratugum sem ég gekk út í sumarið nýstúdent frá Menntaskólanum við Sund ásamt 170 samstúdentum mínum. Við vorum þess fullviss að framtíðin væri okkar. Þegar ég lít á stúdentsmyndina 20 ára gamla sést bjartsýnin skína út úr hverju andliti þótt auðvitað hafi örlög okkar orðið með mismunandi hætti og lífið farið mismunandi höndum um fólk. En trúin á framtíðina var svo sannarlega til staðar í þessum 170 andlitum.

Ég velti því fyrir mér hvernig nýstúdentunum sem við sjáum núna um allan bæ líður þegar þeir lesa í fréttum að kjör ungs fólks á Íslandi hafi versnað, bæði samanborið við aðra hópa í samfélaginu í dag en líka samanborið við kjör ungs fólks fyrir áratug. Það er umhugsunarefni fyrir okkur þingmenn því að það er í því fólki sem framtíðin býr og það er um framtíðina sem við eigum að vera að tala í kvöld.

Þegar við lítum aftur á sögu Íslands á 20. öldinni er hún um margt saga mikilla sigra. Samfélag og atvinnulíf sem byggðust upp á ótrúlega skömmum tíma. Það er við hæfi að minnast þess að á þessu ári fögnum við 100 ára afmæli Alþýðusambands Íslands, minnumst þeirra sigra sem íslensk verkalýðshreyfing hefur unnið, almannatryggingar, stytting vinnutíman, samningsrétturinn, bara svo eitthvað sé nefnt. Á sama tíma vannst mikið í uppbyggingu velferðarsamfélagsins, heilsugæslu, menntakerfis, konur fengu kosningarrétt, komið var á fæðingarorlofi og svo mætti lengi telja. Ekkert af þessu vannst án baráttu fólks sem vildi vinna fyrir almannaheill. Og alltaf voru nógir til að andmæla umbótunum. Alltaf voru nógir sem engar breytingar vildu.

Líf okkar sem nú lifum og störfum á Íslandi er markað af baráttu þeirra kynslóða sem gengu á undan. Við eigum þeim margt að þakka. Samfélagið stendur aldrei kyrrt, það er í eilífri þróun. Eftir hraðskreiðar breytingar í upphafi þessarar aldar, einkavæðingu bankanna, einföldun regluverks og uppbyggingu fjármálakerfis sem flestum Íslendingum var eins og hulinn heimur, kom hrun 2008 þegar pótemkin-tjöldum gervivelmegunar var svipt frá á einni viku. Núna átta árum síðar, eftir mikið starf margra, ekki síst almennings sem tók á sig auknar byrðar og erfiðleika, eru bjartari horfur í efnahagsmálum þjóðarinnar en lengi hefur verið. Það er gott og við Íslendingar getum þakkað okkur sjálfum. Við getum líka þakkað forsjóninni sem færði okkur m.a. makríl og ferðamenn þegar neyðin var mest og hefur hjálpað okkur upp úr öldudalnum. Þá er eðlilegt að spyrja: Eru ekki allir glaðir og reifir? Nei, það eru ekki allir glaðir og reifir því að bjartari tímar í efnahagsmálum duga ekki til ef meginþorri almennings í landinu fær ekki að njóta þessara bjartari tíma og reynir á eigin skinni rangláta skiptingu auðs, ranglátt kerfi sem meðhöndlar ekki alla jafnt.

Afhjúpanir Panama-skjalanna hafa rifjað upp fyrir okkur með áþreifanlegum hætti að fjármálakerfið sem byggt var upp fyrir hrun af nýfrjálshyggjuöflunum, núverandi stjórnarflokkum, lifði hrunið af. Hér á landi er fámennur hópur sem tók þátt í því að nýta sér aflandsfélög í skattaskjólum til að geyma peninga sína. Þessi félög lúta ekki sömu reglum og við setjum okkar eigin viðskiptalífi og samþykkjum á Alþingi Íslendinga. Afhjúpanir Panama-skjalanna hafa sýnt okkur með áþreifanlegum hætti misskiptinguna í samfélaginu, hvernig sumir hafa fjármagn sem þeir geta nýtt til að spila á öðrum leikvelli en okkur hinum er ætlaður. Panama-skjölin afhjúpuðu fyrir okkur að á Íslandi búa tvær þjóðir. Bjartari tímar í efnahagsmálum duga ekki til ef við þorum ekki að ráðast að rótum þessarar misskiptingar.

Það er nefnilega þannig, herra forseti, að alls staðar í heiminum er fólk að vakna til vitundar um að það er ekki eðlilegt að ríkasta 1% í heiminum eigi meira en hin 99%. Á Íslandi er fólk að vakna til vitundar um að ekki sé eðlilegt að ríkustu 10% eigi nærri 3/4 alls auðs á Íslandi, því að sú misskipting byggist ekki á dugnaði eða verðleikum hinna ríkustu. Hún byggir á þeirri staðreynd að á Vesturlöndum hefur verið reist kerfi sem hyglir hinum auðugustu og kemur niður á millitekju- og lágtekjuhópum. Það hefur verið t.d. verið gert með skattbreytingum, auknum gjöldum fyrir grunnþjónustu á borð við heilbrigðisþjónustu og menntun, með einkarekstri og einkavæðingu almannaþjónustu og breytingum á fjármálakerfinu, breytingum sem oft nást í gegn með þrýstingi fámennra en auðugra hagsmunahópa. Það er þetta kerfi sem skapar misskiptingu á kostnað almannahagsmuna. Og það er sama kerfi sem skapar misvægi milli heimshluta, ágenga nýtingu auðlinda, loftslagsvanda og stríðsátök þannig að sumir heimshlutar eru mun viðkvæmari fyrir átökum og áföllum en aðrir. Það er þetta kerfi sem gerir það að verkum að ekki hafa fleiri verið á flótta síðan frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Það er þetta kerfi sem gerir það að verkum að meira að segja á okkar ríka landi telja um 48% heimila sig eiga í erfiðleikum með að ná endum saman. Það er þetta kerfi sem gerir það að verkum að meira að segja á okkar ríka landi eru um 6.100 börn sem líða skort. Þessu kerfi er hægt að breyta ef við viljum og þorum. En til þess þarf nýja ríkisstjórn sem viðurkennir þá staðreynd að auðlindir okkar eru sameign okkar allra og það er eðlilegt að þeir sem fá leyfi til að nýta þær greiði eðlilegt gjald fyrir þau afnot. Það þarf ríkisstjórn sem viðurkennir að skattkerfið á að nýta til að jafna kjörin, bæði tekjur af vinnu og fjármagni. Það þarf ríkisstjórn sem leggur ekki auknar skattbyrðar á lágtekjufólk með því að hækka virðisaukaskatt á matvæli heldur kortleggur hvar fjármagnið er að finna og skattleggur það, fremur en að seilast í vasa launþega á Íslandi. Um leið og við jöfnum kjörin jöfnum við líka aðstæður fólks, því að þessar tekjur geta skipt sköpum í sameiginlegu verkefni okkar; nýr Landspítali, gjaldfrjálst heilbrigðiskerfi, háskóli og rannsóknir, framhaldsskóli fyrir alla, örorkubætur sem uppfylla framfærsluviðmið og mannsæmandi ellilífeyrir þannig að fólk geti lifað góðu lífi af tekjum sínum og tekið þátt í vinnumarkaðnum og samfélaginu eins lengi og hugur þess stendur til, samfélaginu og því sjálfu til hagsbóta. Það þarf ríkisstjórn sem nýtir uppgang og góðæri fyrir almannahagsmuni.

Hver rannsóknin á fætur annarri um allan heim sýnir að niðurskurðarstefnan sem ríkisfjármálaáætlun núverandi ríkisstjórnar byggist á veldur meiri skaða en ávinningi. Það þarf öfluga grunnþjónustu og aukinn jöfnuð til að tryggja velsæld almennings og almenna hagsæld, fyrir því eru ekki einungis réttlætisrök heldur líka efnahagsleg rök. Það þarf ríkisstjórn sem er tilbúin að endurskoða fjármálakerfið, aðskilja fjárfestingar- og viðskiptabankastarfsemi og tryggja umhverfi fyrir samfélagsbanka sem hafa önnur markmið en eingöngu gróða fyrir hluthafa, til að mynda umhverfissjónarmið, byggðasjónarmið og kynjasjónarmið. Það þarf ríkisstjórn sem vill byggja upp háskólastarfsemi og rannsóknir, nýsköpun og þekkingariðnað, tryggir öllum menntun við hæfi og gjaldfrjálst opinbert heilbrigðiskerfi þannig að tekjulágt fólk þurfi ekki, í þessu ríka landi sem við búum á, að fresta því að sækja sér nauðsynlega heilbrigðisþjónustu. Ríkisstjórn sem tryggir öllum framfærslu sem stendur undir góðu lífi á Íslandi, sem vinnur að því að uppræta skort og fátækt í samfélaginu. Ríkisstjórn sem leggur áherslu á að útrýma mansali og nútímaþrælahaldi, er reiðubúin að berjast gegn kynbundnum launamun hvar sem hann birtist, grípur til raunverulegra aðgerða gegn kynbundnu ofbeldi og er reiðubúin að setja fjármagn í þær aðgerðir. Ríkisstjórn sem tryggir aukin völd almennings og horfist í augu við kröfuna um aukna þátttöku almennings í öllum ákvörðunum. Ríkisstjórn sem kemur endurskoðun stjórnarskrárinnar í höfn þannig að hún verði sannanlega stjórnarskrá fólksins. Það þarf ríkisstjórn sem tryggir að allir á Íslandi sitji við sama borð, njóti sömu tækifæra og vinnur um leið með alþjóðasamfélaginu að auknum jöfnuði í heiminum og tekst á við alþjóðlegar áskoranir með því að ganga á undan með góðu fordæmi.

Kæru landsmenn. Líf kynslóðanna sem komu á undan okkur er saga okkar sem nú lifum og líf okkar mun verða saga þeirra barna sem nú koma í heiminn. Hvaða spurninga munu þau spyrja þegar þau líta um öxl? Tókst að vernda miðhálendið fyrir komandi kynslóðir? Tókst að tryggja gjaldfrjálsa heilbrigðisþjónustu? Var ákveðið að styrkja menntun og rannsóknir fyrir framtíðina? Voru öryrkjum tryggð mannsæmandi kjör eða fannst samfélaginu í lagi að þeir rétt skrimtu fyrir neðan öll framfærsluviðmið? Opnuðum við faðminn fyrir fólki á flótta eða reistum við kannski ósýnilegar girðingar og vísuðum burt fólki sem var tilbúið til að leggja allt í það að byggja hér upp líf sitt í sátt við samfélagið? Var byggt upp samfélag eftir efnahagshrunið þar sem öllum var tryggt að lifa með reisn? Eða var rekin niðurskurðarstefna til að tryggja að hinir auðugustu héldu sem mestu af fjármunum sínum? Var byggt upp samfélag þar sem lýðræðið var aukið til að tryggja að raddir sem flestra hefðu áhrif? Eða var barist gegn öllum kerfisbreytingum til að tryggja að sem fæstir réðu sem mestu? Var fjármálakerfið endurskoðað í þágu samfélags og atvinnulífs? Var gripið til róttækra aðgerða gegn loftslagsbreytingum fyrir komandi kynslóðir? Var unnið að jafnrétti kynjanna þannig að kynið hætti að skipta máli fyrir launaumslagið? Var byggt upp auðmannasamfélag eða jafnaðarsamfélag?

Kæru landsmenn. Það er okkar að ákveða hver þessi saga verður, hver saga unga fólksins verður sem nú þarf að taka ákvörðun um það hvernig framtíð það vill byggja sér. Þar er valið skýrt. Saman getum við byggt upp heilbrigt samfélag, grænt samfélag, gott samfélag, jafnaðarsamfélag. Um það munu næstu kosningar snúast. Þar getum við valið alla þessa kosti í haust.