145. löggjafarþing — 121. fundur,  30. maí 2016.

almennar stjórnmálaumræður.

[20:29]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Góðir Íslendingar. Mikið hefur gengið á síðari hluta þessa vetrar. Panama-skjölin litu dagsins ljós og birtu okkur svart á hvítu það sem við jafnaðarmenn höfum klifað á, að tvær þjóðir búi í landinu. Önnur, mikill meiri hluti þjóðarinnar, leggur mikið á sig til að ná endum saman og búa sér og sínum fallegt og öruggt heimili. Meginþorri Íslendinga þekkir þetta strit. Íslensk lán á himinháum vöxtum, oftast verðtryggð, hátt matarverð, mikil gjaldtaka í opinberri þjónustu, svo lítið ef nokkuð situr eftir í mánaðarlok. Svo er hin þjóðin sem er ekki stór en hún býr einfaldlega í allt öðrum veruleika. Hún er með sérdíl, hefur aðgang að fólki og fjármagni sem við hin höfum ekki, tekur erlend lán á mun hagstæðari kjörum en aðrir geta nokkurn tímann látið sig dreyma um. Sumir fara jafnvel með peningana sína í skjól frá íslenskum skattyfirvöldum. Hið sama má segja um fyrirtækin í landinu, þar er sama mynstur í svipuðu hlutfalli og býr til vægast sagt skekkta samkeppnisstöðu meðal íslenskra fyrirtækja.

Fæst okkar vilja hafa þetta svona. Ég held að við viljum flest að fólk geti haft það gott á Íslandi, jafnvel grætt dálítið af peningum. Það er ekkert að því að efnast vel en á sama tíma viljum við að tækifærin til þess séu jöfn, það séu ekki til hópar sem fái sérmeðferð. Við viljum að þegar hlutabréf eru boðin út á okkar litla landi hafi allir sömu tækifæri til að fjárfesta. Við viljum að þegar fyrirtæki eru seld út úr fjármálastofnunum sé söluferlið gegnsætt og að allir eigi jafnan möguleika á að fjárfesta. Það verður ekki fyrr en stjórnvöld og atvinnulífið allt fara undir öllum kringumstæðum að vinna í anda gagnsæis og skýrleika í ferlum sem við getum búist við að traust fari að skapast á ný í samfélaginu.

Kæru Íslendingar Fyrir utan Panama-skjölin og stólaskiptin sem urðu í tengslum við þau hefur lítið gerst á þessu þingi, og á kjörtímabilinu ef því er að skipta. Fá mál sem hafa víðtæk áhrif koma inn í þingið og hljóta afgreiðslu því að stjórnarflokkarnir virðast ekki koma sér saman um meginlínur. Það er miður því að af nægu er að taka. Mig langar að beina sjónum okkar hér í þessari umræðu að einum hópi í samfélaginu sem við samfylkingarfólk höfum miklar áhyggjur af. Það er unga fólkið. Réttast væri að kalla það gleymdu kynslóðina. Þetta er hópurinn sem stendur frammi fyrir því að framhaldsskólarnir eru sveltir. Þetta er hópurinn sem stendur frammi fyrir því að háskólastigið þarf aukið fjármagn. Hann stendur frammi fyrir því að háskólastigið er keyrt á stundakennurum á lúsarlaunum. Framfærsla námslána er of lág og nú ætlar ríkisstjórnin að fara að hækka vextina, stytta endurgreiðslutímabilið og þyngja þar með endurgreiðslubyrðina.

Hvaða áhrif mun það hafa ef þær áætlanir ríkisstjórnarinnar ná fram að ganga að afnema tengingu við tekjur fyrir t.d. leikskólakennara með fimm ára nám á bakinu? Þetta eru stóru spurningarnar sem við horfum núna framan í frá þessari ríkisstjórn.

Í húsnæðismálunum blasir sú staða við ungu fólki að þar er himinhá húsaleiga, himinhátt húsnæðisverð fyrir þá sem ætla að fjárfesta og sílækkandi vaxtabætur. Þessi ríkisstjórn hefur ekki trú á stuðningi vegna húsnæðiskaupa eða -leigu.

Hámarksgreiðslur fæðingarorlofs hafa staðið í stað allt þetta kjörtímabil með þeim afleiðingum að færri karlar taka orlofið, fæðingum hefur fækkað niður í 1,9 fæðingar á hverja konu á meðan við þurfum 2,1 fæðingu til að viðhalda samfélaginu. Hverjir eiga með þessu áframhaldi að standa undir samfélaginu þegar okkar kynslóðir fara á eftirlaun?

Þau sem þó eignast börn greiða síðan himinhá leikskólagjöld ofan á allt hitt. Dæmi um veruleika íslenskrar, ungrar fjölskyldu í Kópavogi: Tvö börn á leikskóla eru um 60.000 kr. Ofan á það kemur leiga á fjögurra herbergja íbúð á bilinu 200.000–240.000 kr. Þá er ekki mikið eftir á heimili ungrar fjölskyldu. Það segir sig sjálft að þar er þröngt í búi.

Í góðri umræðu sem hv. þm. Björt Ólafsdóttir stóð fyrir hér um daginn var farið vel yfir það hvernig tekjur yngstu aldurshópanna á Íslandi hafa hækkað minnst. Þær hafa ekki fylgt launaþróuninni. Þetta er áhyggjuefni vegna þess að þegar allt er tekið saman er álagið á ungt fólk hér á landi mikið og tækifærin til að koma sér þaki yfir höfuðið fá. Ofan á þetta hafa svo tekjur til þessa unga fólks ekki hækkað í takt við almenna launaþróun.

Kæru Íslendingar. Stjórnmálin verða að fara að beina sjónum sínum að þessu. Við jafnaðarmenn viljum fjárfesta í unga fólkinu og því verðum við að snúa af þessari braut, horfa heildstætt á allan þann kostnað sem það ber og þann aðbúnað sem það býr við. Við þurfum að opna framhaldsskólann aftur, tryggja honum fjármuni. Við eigum að taka upp styrki til framfærslu á háskólastigi en gæta vel að endurgreiðslubyrðinni svo nám borgi sig.

Kæru Íslendingar. Við þurfum líka að grípa til víðtækra aðgerða á húsnæðismarkaði til að tryggja aðgengi að ódýrara leiguhúsnæði, sem jafnframt er öruggt, ásamt öflugum stuðningi við leigu og kaup á húsnæði. Til að bæta hag ungu kynslóðarinnar þurfum við einnig að hækka hámarksgreiðslu fæðingarorlofs, lengja orlofið og veita skattafslætti á móti leikskólagjöldum. Við þurfum að horfa til peningastefnunnar sem þessi ríkisstjórn hefur algjörlega vanrækt og skilar okkur þeim háa lántökukostnaði sem blasir við ungu fólki á húsnæðismarkaði í dag.

Kæru Íslendingar. Næstu kosningar verða að snúast um þessa gleymdu kynslóð og ég skora á ykkur öll hér inni að taka málefni hennar föstum tökum, koma okkur upp úr þessum bitru skotgröfum og fortíðarhjakki og fjárfesta í framtíðinni. — Gleðilegt sumar.