145. löggjafarþing — 121. fundur,  30. maí 2016.

almennar stjórnmálaumræður.

[20:56]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Kæru landsmenn. Mig langar til að ræða um umhverfismál hér í kvöld. Þó að það sé mikil vitundarvakning í gangi finnst mér þessi málaflokkur ekki enn fá þá athygli sem hann á að fullu skilið. Við heyrum fréttir af því í hverjum mánuði að hitamet sé slegið á jörðinni. Fellibyljir eru tíðari, hitabylgjur eru fleiri og heitari, jöklar bráðna, sjávarborð hækkar og ógnar samfélögum eins og á Maldív-eyjum þar sem svo getur farið að allir íbúar þurfi hreinlega að flýja heimkynni sín.

Síðast í dag voru fréttir af því að rúmlega þriðjungur kóralla í norður- og miðhluta kóralrifsins mikla við Ástralíu sé dauður og það er talið vera af völdum loftslagsbreytinga. Síðan eru mörg umhverfisvandamál sem við stöndum frammi fyrir sem hafa ekki endilega neitt með loftslagsbreytingar að gera. Við erum frek á þær takmörkuðu auðlindir sem finnast í jörðinni og með átroðningi og græðgi og eflaust líka þekkingarleysi völdum við því að fjölmargar dýrategundir eru útdauðar og margar í útrýmingarhættu. Við fellum skóga. Við rýmum til fyrir ræktunarlandi, m.a. til að geta ræktað fóður fyrir dýr, eða mat sem í allt of miklum mæli endar í ruslinu einhvers staðar á ferðalaginu frá akri heim til neytandans. Við notum eiturefni ýmiss konar við ræktun eins og ekkert sé sjálfsagðara — allt í nafni aukinnar hagræðingar um stundarsakir.

Nýlegar voru sagðar fréttir af rannsókn sem danska matvælaeftirlitið gerði og sýndi óvenjumikið af skordýraeitri í þvagi danskra barna. Ef efnið finnst í þvagi barna getum við ímyndað okkur magnið sem er að finna á ökrunum og í umhverfinu þar sem þessir ávextir eru ræktaðir og hver áhrifin eru á verkafólkið sem beinlínis er í snertingu við þessi efni. Það er ekki alltaf þannig að öryggiskröfur og öryggisbúnaður sé í góðu lagi í fátækum löndum þar sem framleiðslan er.

Virðulegi forseti. Mér finnst stundum eins og stjórnvöld tali um umhverfismál af því að þeim beri skylda til þess og svo er verið að skottast í einhverjum umhverfisverkefnum af því að það er pólitískt rétt en áhuginn sé takmarkaður eða kannski öllu frekar sannfæringin af skornum skammti. Áhuginn úti í samfélaginu er að aukast, en maður heyrir líka fólk segja að við séum svo fá og spyrja hverju við getum svo sem breytt, við séum bara 320.000 — en við getum ýmislegt gert. Við getum verið stolt af mörgu sem við höfum gert eins og nýtingu á jarðvarma og vatnsafli og að við settum skilagjald á dósir og flöskur. Það var flott hjá okkur og aðrar þjóðir gætu tekið sér það til fyrirmyndar.

Svo vil ég líka segja litla sögu af því að lítil samfélög geta haft áhrif. Árið 2007 ákvað lítill bær, Modbury í Bretlandi, að bærinn yrði plastpokalaus. Plastpokar voru bannaðir og seljendur í bænum fundu bara upp á öðrum leiðum til að koma varningnum til neytenda í umhverfisvænum umbúðum. Það er ekki þannig að fólk sé sektað en ef það er með plastpoka er það litið hornauga. Ástæðan fyrir þessu er sú að ung kona í bænum, Rebecca Hoskins, vann hjá BBC og var að taka upp náttúrulífsþætti. Hún var að taka upp dýralíf á hafi úti og sá hvað gerðist þegar plastrusl varð á vegi sjófugla, höfrunga og ýmissa sjávardýra sem flæktust í plastinu og dóu, allt út af einnota neyslumenningu. Henni var nóg boðið og þessi litli bær komst í heimsfréttirnar fyrir vikið. Við erum öll að tala um plastpokalaust samfélag í dag.

Svo lesum við að í Hollandi séu menn raunverulega að tala um að banna innflutning á bílum sem brenna jarðefnaeldsneyti frá og með árinu 2025. Þetta er alvöru — og hvað gerum við? Jú, samkvæmt stefnu stjórnvalda eiga 10% bílaflotans að vera knúin endurnýjanlegri orku árið 2020. Í dag er hlutfallið um 1% þannig að það þarf aldeilis að spýta í lófana.

Ég hef af og til spurt út í bílainnkaupastefnu stjórnvalda enda eðlilegt að ríkið sé í fararbroddi og kaupi bara nýorkubíla. Í dag fást slíkir bílar í öllum útgáfum og það er engin afsökun fyrir ráðherra eða opinberar stofnanir að kaupa ekki slíka bíla. Í rauninni ætti það að vera algjört undantekningartilfelli ef hið opinbera kaupir bíl sem brennir jarðefnaeldsneyti. Við erum að tala um árið 2016, það þarf að gera miklu betur í þessu.

Mér finnst alveg út í hött hvað við urðum mikinn úrgang og hvað við erum komin stutt í endurvinnslumálum. Ég tek dæmi frá Akureyri þar sem heimili flokka allan lífrænan úrgang og hann er sendur í moltu. Þar hefur þetta verið gert í þó nokkur ár og gengur mjög vel. Fyrirtæki eða verslanir sem losa sig við útrunninn mat og annan lífrænan úrgang keyra hann hins vegar í gröf í Húnavatnssýslu þar sem hann er urðaður í plasti og öllu vegna þess að það er ódýrara. Hvernig getur hvatinn verið svona vitlaus? Hvernig getur verið ódýrara að fara óumhverfisvænni leiðina? Þetta er nokkuð sem stjórnvöld verða að taka á. Við þyrftum ekki einu sinni að tala um sóun á mat ef það væri beinlínis bannað að urða lífrænan úrgang og það væri tekið eðlilegt gjald fyrir að þurfa að skila slíkum úrgangi í moltugerð.

Það er rétt að við erum fá, en við getum sett fordæmi. Við getum verið öðrum hvatning. Okkur ber ekki bara skylda til að leita allra leiða til að minnka vistspor okkar á jörðinni. Við getum ekki gert eins og með lífeyrisskuldbindingarnar þar sem við sendum þær bara inn í framtíðina og krossum svo fingur og vonum að barnabörnin okkar sjái um að redda hlutunum. Ef við tökum okkur ekki á og göngum í málið hvað varðar umhverfið, hvað varðar jörðina og náttúruna, erum við ekki að skapa komandi kynslóðum bjarta framtíð.

Virðulegur forseti. Það gengur ekki. Hv. þm. Ögmundur Jónasson, vinur minn, orðaði það áðan svo að hagsmunir neysluhyggjunnar tækjust á við hagsmuni móður jarðar. Það eru orð að sönnu. Hv. þingmaður spurði líka: Viljum við vinstri eða viljum við hægri? Ég segi að miðjan sé góður staður til að vera á, kannski ekki öruggur staður til að vera á miðað við skoðanakannanir, en góður staður til að vera á.

Græn miðja, það er málið. — Góðar stundir.