145. löggjafarþing — 121. fundur,  30. maí 2016.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:20]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Á dögunum átti ég spjall við portúgalskan verkamann sem ég hitti úti á flugvelli og var á leið til vinnu á Þeistareykjum. Hann sagði að kjör almennings í Portúgal væru erfið og mikil spilling væri í landinu: Þið Íslendingar eruð eins og ein stór fjölskylda og deilið kjörum og enginn er merkilegri en annar. En svo kemur í ljós að æðstu ráðamenn ykkar eru í Panama-skjölunum og litla Ísland er ekki eins saklaust og ætla mætti heldur hefur spillingin, græðgin og vont siðferði náð að grassera hér eins og heima, sem hefur leitt til mikillar misskiptingar.

Það var eins og köld vatnsgusa yfir þjóðina þegar komst upp um það að ekki róa allir í sömu átt. Það er sá hluti þjóðarinnar sem er á fyrsta farrými og felur fé sitt í skattaskjólum og svo eru það þeir sem eru í lestinni og halda þjóðarskútunni á floti og standa undir samfélagslegri ábyrgð.

Skattkerfisbreytingar miðast fyrst og fremst við það að hlífa þeim sem betur mega sín en draga úr stuðningi við þá efnaminni. Aldraðir og öryrkjar fá ekki sambærilegar hækkanir og lægstu laun á vinnumarkaði. Þeir lægst launuðu greiða allt of hátt skatthlutfall af tekjum sínum.

Það hefur reynst ungu fólki erfitt að leigja eða eignast húsnæði, mennta sig og stofna heimili, við þau kjör sem ungu barnafólki eru búin í dag. Vinstri græn vilja stórauka stuðning í húsnæðismálum við ungt og efnaminna fólk, lengja fæðingarorlofið og hækka fæðingarorlofsþakið og að leikskólar verði gjaldfrjálsir í áföngum.

Landsbyggðastefna þessarar ríkisstjórnar fær algjöra falleinkunn. Samgönguáætlun lýsir líka algjöru metnaðarleysi. Það þarf að gera stórátak í samgöngumálum ef ekki á illa að fara. Fjarskiptamál skipta landsbyggðina jafn miklu máli og samgöngubætur. Það skiptir sköpum fyrir búsetu að gott netsamband sé tryggt um land allt. Sveitarfélögunum var att út í samkeppni um þá litlu fjármuni sem til skiptanna voru í útboði og þau verst settu sátu eftir með sárt ennið. Þarna þurfa að koma til miklu meiri fjármunir því að ljúka þarf ljósleiðaravæðingu og háhraðatengingum um land allt sem fyrst, það verkefni þolir enga bið.

Aðgengi að menntun er lykilatriði fyrir allar framfarir. Ég tel að það sé aðför að jöfnum tækifærum til menntunar þegar stjórnvöld hefta aðgengi að framhaldsskólum landsins og fjársvelta skólana. Nýjasta útspilið varðandi LÍN virðist stefna í að draga úr möguleikum efnaminna fólks til náms. Litlu háskólarnir berjast í bökkum.

Heilbrigðiskerfið er fjársvelt þrátt fyrir góða stöðu ríkissjóðs. Einkarekstur í heilbrigðiskerfinu hefur verið aukinn og mikill arður er tekinn út úr einkarekstri sem bitnar á opinberri uppbyggingu heilbrigðiskerfisins og dregur úr aðgengi þeirra efnaminni að heilbrigðisþjónustu.

Ferðaþjónustan skapar miklar gjaldeyristekjur en það bólar ekkert á innviðauppbyggingu. Það er mikilvægt að ferðaþjónustan eflist um land allt og létti þannig álagi á fjölförnustu stöðunum. Við vinstri græn leggjum til að Framkvæmdasjóður ferðamannastaða verði fjármagnaður með komugjöldum á flugfarseðla til landsins og auknu gistináttagjaldi sem renni að hluta til til sveitarfélaganna til uppbyggingar heima fyrir.

Það eru víða brothættar byggðir til sjávar og sveita á landsbyggðunum. Við vitum vel hvernig kvótakerfi hefur leikið mörg sjávarpláss og sá búvörusamningur sem nú liggur fyrir og tollasamningur með stórauknum innflutningi landbúnaðarvara stefnir sauðfjárrækt í jaðarbyggðum í tvísýnu og hefðbundnum fjölskyldubúum í hættu. Við vinstri græn viljum efla byggðahlutverk landbúnaðarins og efla þar nýsköpun og sjálfbærni.

Vinstri græn vilja róttæka endurskoðun á fiskveiðistjórnarkerfinu sem tryggir stöðugleika og atvinnu í sjávarbyggðunum. Strandveiðarnar hafa verið vaxtarbroddur sem hleypt hefur lífi í sjávarbyggðirnar og þær verður að efla. Það verður líka að byggðatengja aflaheimildir svo að ekki ríki mikil óvissa í brothættum sjávarbyggðum.

Sérstaða Vinstri grænna hefur m.a. falist í friðarmálum, umhverfismálum og kvenfrelsismálum. Í þeim málaflokkum höfum við skyldur á alþjóðavísu og eigum að vera leiðandi afl og til fyrirmyndar þó að við séum fámenn þjóð. Vinstri græn vilja að framtíðin byggðist á jöfnum tækifærum öllum til handa sem byggjast á sjálfbærni, jöfnuði og félagslegu réttlæti. Vinstri græn eru á velferðarvaktinni fyrir fólkið í landinu og fyrir náttúru landsins.

Góðir landsmenn. Við treystum á stuðning ykkar í kosningunum í haust því að ný ríkisstjórn verður að hafa réttlæti og jöfnuð að leiðarljósi. — Gleðilegt sumar.