145. löggjafarþing — 121. fundur,  30. maí 2016.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:25]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Kæru landsmenn. Undanfarinn þingvetur hefur verið afar viðburðaríkur og ýmislegt hefur gengið á. Þrátt fyrir það megum við ekki gleyma þeim mikla árangri sem ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hefur náð á einungis þremur árum. Erlend staða þjóðarbúsins hefur ekki verið jafn góð síðan á síldarárunum og í þeirri ríkisfjármálaáætlun sem lögð var fram á dögunum kemur fram að skuldahlutfall ríkisins verði í kringum 30% á næsta kjörtímabili. Þessi árangur er ánægjulegur fyrir okkur öll. Minna af fjármunum ríkisins fer í að borga niður skuldir og vaxtagjöld og í staðinn er hægt að nýta fjármuni í að styrkja okkar mikilvægu innviði.

Á þessu kjörtímabili hefur verið forgangsraðað til heilbrigðismála, í almannatryggingakerfið og til annarra velferðarmála. Um 50% af útgjöldum ríkissjóðs hafa runnið í þessa málaflokka. Ekki var vanþörf á eftir mikinn niðurskurð til fjölda ára. Halda þarf áfram að forgangsraða á þennan hátt til að ná þeim árangri sem við viljum. Mikilvægt er að forgangsraða áfram í þágu velferðar, m.a. með það að markmiði að styrkja heilbrigðisstofnanir víða um land, auka í almannatryggingakerfið, styrkja menntastofnanir og stuðla þannig að jafnrétti til náms og fara í endurbætur á lögum um fæðingarorlof.

Virðulegur forseti. Góðir landsmenn. Góð staða þjóðarbúsins gefur okkur jafnframt tækifæri til að bæta við stórum og spennandi verkefnum. Má í því samhengi nefna húsnæðismálin, uppbyggingu á 2.300 leiguíbúðum, eina þá stærstu uppbyggingu sem orðið hefur á húsnæðismarkaði frá því að Breiðholtið var byggt. Markmið þessara laga er að auka búsetuöryggi á leigumarkaði og lækka leigugreiðslur þeirra sem í þessu kerfi munu búa. Nú þegar hafa ýmis sveitarfélög víða um land sýnt verkefninu áhuga. Samhliða þessu er unnið að því að auka húsnæðisbætur til þeirra sem eru á leigumarkaði.

Stefnt er að því að þessi frumvörp verði að lögum innan fárra daga. Áhrif þeirra eiga að skila því að leigugreiðslur verði ekki hærri en 20–25% af ráðstöfunartekjum þeirra sem í þessu nýja leigukerfi munu búa. Þessar ráðagerðir ná m.a. til unga fólksins okkar sem er nýkomið úr námi og jafnframt til þeirra hópa aldraðra og öryrkja sem minnst hafa milli handanna.

Nú þegar hefur Alþingi samþykkt lög um húsnæðissamvinnufélög og hafin er uppbygging á 400 íbúðum sem rekja má til nýsamþykktra laga. Auk þessa er unnið að endurskipulagningu fjármálakerfisins, m.a. að endurskoðun á greiðslumati, hvataaðgerðum sem eiga að hjálpa unga fólkinu okkar að kaupa fasteign og aðgerðum er varða verðtrygginguna. Stefnt er að því að þessi mikilvægu mál verði lögð fram um miðjan ágúst.

Þessi vinna er í samræmi við þá stefnu ríkisstjórnarinnar að landsmenn hafi raunhæft val um búsetuform, geti valið milli þess að eiga húsnæði, leigja húsnæði eða búa í húsnæðissamvinnufélagi.

Virðulegur forseti. Ágætu landsmenn. Forgangsraðað hefur verið til heilbrigðismála. Heilbrigðismálin eru stærsti útgjaldaliður ríkissjóðs. Í umræðunni hafa málefni Landspítalans verið afar áberandi. Umræðan hefur snúist um bágan húsakost stofnunarinnar og það mikla álag sem er á starfsfólki spítalans. Unnið hefur verið að því að lagfæra þessa þætti og áætlanir eru uppi um hvernig halda skuli áfram þeim endurbótum.

Víða um land eru öflugar heilbrigðisstofnanir, stofnanir sem geta tekið við verkefnum, m.a. til að minnka mikið álag á Landspítala. Í þessu samhengi langar mig að minnast á MBA-rannsókn sem skilað var sem lokaverkefni við Háskólann í Reykjavík. Þar kemur fram að hægt væri að stytta biðlista vegna liðskiptaaðgerða úr 15 mánuðum í þrjá með því að nýta skurðstofur á sjúkrahúsinu á Akranesi. Talið er að sú stofnun sé heppilegur kostur vegna nálægðar við höfuðborgina og allar stoðdeildir þegar til staðar.

Til mikils er að vinna þar sem öll bið reynist sjúklingum erfið og biðlistar kosta samfélagið tugi milljóna. Kostnaður við að koma svona verkefni á væri í kringum 25 millj. kr. Það er ábyrgðarfullt ef þetta verkefni verður kannað nánar og gripið til aðgerða.

Annar stærsti útgjaldaliður ríkissjóðs er almannatryggingar og önnur velferðarmál. Óhætt er að segja að bætt hafi verið í þennan málaflokk á kjörtímabilinu en gera þarf betur. Nú þegar er unnið er að frumvörpum um endurskipulagningu á almannatryggingakerfinu og mikilvægt að sú vinna gangi hratt og vel fyrir sig. Þar þarf að horfa sérstaklega til þeirra hópa innan kerfisins sem minnst hafa á milli handanna og það verður að stuðla að því að lægstu bætur almannatryggingakerfisins fylgi lágmarkslaunum í landinu.

Hæstv. forseti. Kæru landsmenn. Að lokum vil ég segja að okkur gengur vel á Íslandi í dag. Við höfum fulla ástæðu til að vera bjartsýn. Staða ríkissjóðs er góð og við höfum tækifæri til uppbyggingar á mörgum mikilvægum innviðum í samfélaginu. Við nýtum tækifærin.

Að lokum vil ég óska ykkur öllum velfarnaðar. — Góðar stundir og gleðilegt sumar.