145. löggjafarþing — 121. fundur,  30. maí 2016.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:32]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Góðir landsmenn, þið sem enn sitjið fyrir framan sjónvarpið eftir þessar skemmtilegu umræður hér í kvöld. Þar sem þetta er síðasta eldhúsdagsræðan mín er kjörið tækifæri fyrir mig til að segja skoðanir mínar á einstaklingum hér innan dyra umbúðalaust [Hlátur í þingsal.] og gefa einkunnir, en ætli ég geymi það ekki til bókarinnar þar sem ég geri upp þingmennsku mína, bókar sem örugglega á eftir að seljast í tugum eintaka.

Mikið er rætt um virðingu og traust í pólitíkinni. Það er þjóðin sem markar stefnuna sem þjóðfélagið fer í, ástandið í þjóðfélaginu er á ábyrgð þjóðarinnar. Virðing þingsins er á ábyrgð þjóðarinnar. Enginn einn þingmaður getur gert nokkurn skapaðan hlut til að bæta virðingu þingsins, hann getur bara gætt að virðingu sinni, að eigin sómakennd ef hann á hana til. Flestir sem ég hef kynnst á þessum vettvangi eru mjög vandir að virðingu sinni. Maður hefur eignast vini þvert á flokka og samstarfið er oftast mjög gott. Því verður ekki neitað að á þessum vinnustað eins og á svo mörgum öðrum eru erfiðir einstaklingar sem mikið af deilunum hér í þinginu hverfast um. Ef þjóðin vill málefnalegt þing verður hún að kjósa fleiri málefnalega þingmenn, færri rifrildisseggi. Hverjir eru það? Þið vitið það. Þið, kæru Íslendingar, vitið hverjir eru að reyna að verða að gagni, hverjir eru aðallega fyrir, hverjir láta öll mál snúast um sjálfa sig, hverjir eru stanslaust í stríði. Þessir erfiðu einstaklingar hljóta að geta fundið sér eitthvert starf sem hæfir þeim betur eins og til dæmis dyravörslu á skemmtistöðum sem ég hóf minn starfsferil á og lærði mikið af, sérstaklega um almenna diplómasíu og sáttamiðlun.

Við sem stofnuðum Bjarta framtíð gerðum tilraun hér fyrir síðustu kosningar til að bjóða upp á valkost sem byggði á þeirri meginhugsun að skapa samfélag sem börnin okkar vildu búa í, sem komandi kynslóðir vildu erfa, málefnalegan flokk sem byggði á þeirri grunnreglu að tala um sína stefnu fyrst og fremst, láta af átakapólitík, stunda kurteisari samskipti en áður hafa þekkst. Sumir stjórnarþingmenn, aðallega ráðherrar, túlkuðu þetta á þann veg að við ætluðum ekki að gagnrýna léleg vinnubrögð. Sú spurning hefur oft heyrst héðan af ráðherrabekkjunum, þegar þeir hafa fengið að heyra mat okkar á frammistöðu sinni: Eru þetta nýju stjórnmálin? Svarið við því er að það er ekki þeirra að skilgreina pólitík okkar. Það er ekki dónalegt að gagnrýna vinnubrögð og benda á aðrar leiðir.

Í morgun sagði til dæmis hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra að þegar hún hefði tekið við ferðamálunum fyrir þremur árum hefðu enginn plön verið til til þess að fást við þann vanda sem við blasti. Það munar 3 milljörðum á ríkisfjármálaáætlun sem fjármálaráðherra leggur fram og samgönguáætlun sem innanríkisráðherra leggur fram. Þetta er til marks um léleg vinnubrögð, um ríkisstjórn sem talar ekki saman, ríkisstjórn sem skortir almennilega verkstjórn.

Það eru hlutir sem hafa verið samþykktir af stjórnarmeirihlutanum á þessu kjörtímabili sem eru svo furðulegir að það verður að gagnrýna þá. Eins og til dæmis það að ætla að byggja hér hús, eins og meiri hluti fjárlaganefndar samþykkti, sem byggði á hugmyndum Guðjóns Samúelssonar, hús fyrir þingmenn og fyrir starfsemi þingsins. Það gerðist ekki fyrr en búið var að skipta um forsætisráðherra að það var í lagi að Píratar fengju líka fulltrúa í stjórn Ríkisútvarpsins. Þetta er ekki eðlilegt og þetta er auðvitað gagnrýnisvert.

Satt best að segja, það verður að segja það eins og er, er ekki mikil stemning fyrir kurteisispólitík á Íslandi, ekki miðað við skoðanakannanir. Þá verður maður að segja: Hvað með það? Á maður ekki að standa með sannfæringu sinni í þeim efnum, berjast fyrir því sem maður trúir á? Við í Bjartri framtíð höfum mótmælt lélegum vinnubrögðum en stutt fjölda góðra mála. Það sýnir okkar ferill hér í þinginu og getur hver sem er skoðað það. það er mín sannfæring að það verði að breyta þingsköpum til að koma í veg fyrir málþóf.

Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að byggja inn í stjórnkerfið fleiri ferla þar sem gert er ráð fyrir því að samið sé um niðurstöðu mála. Það mundi gerast með beinni heimild þjóðarinnar í stjórnarskrá til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um lagafrumvörp og ákvarðanir Alþingis. Hún mundi hafa svo afgerandi áhrif á stjórnmálin, sú litla breyting, að eftir 100 ár mundu menn segja: Þarna snerist gæfan Íslendingum í vil. Þarna fór þeim að ganga vel. Það verður að setja þetta ákvæði inn i stjórnarskrána áður en þingi lýkur. Þótt ekki næðist samstaða um neitt annað þá er þetta það besta sem við getum gert sameiginlega núna, stjórn og stjórnarandstaða. Það er næg samstaða um þetta hér í þinginu þó sumir, þar á meðal ég, vildu ganga miklu lengra. En þetta yrði klárlega upphafið að miklum jákvæðum breytingum á komandi árum og áratugum.

Það hefur orðið lýðræðisvakning í landinu eftir hrun. Við sjáum það á atbuðarásinni í apríl; kosningar í haust og endurnýjun stjórnarsamstarfsins urðu vegna þess að þjóðinni var misboðið. Hún er til í margt en ekki að vera með forustumenn sem gera okkur að fíflum á alþjóðavettvangi. Þjóðin ræður. Það er afleiðing lýðræðisvakningarinnar eftir hrun.

Fjölmiðlalögin 2004, Kárahnjúkavirkjun, ákvörðun um Íraks-stríðið — engin ríkisstjórn getur lengur hagað sér með þessum hætti. Fjölmargir nýir fjölmiðlar sem litið hafa dagsins ljós á síðustu mánuðum, missirum og árum, nú síðast Reykjavík Media Jóhannesar Kr. og félaga og Kjarninn, Stundin, Fréttatíminn, Kvennablaðið, Nútíminn sýna að markaðurinn, fólkið, hafnar miskunnarlaust hefðbundnum og gamalgrónum fjölmiðlum viðskiptavelda, þar sem leiðaraopnan er eins og gjallarhorn eigendahópsins og fagnar nýjum. Fréttablaðið, DV og Morgunblaðið eru í dag langt frá því að vera þær uppsprettur hugmynda og meginvettvangur umræðunnar sem þau voru. Viðbrögðin við furðulegu háttalagi Moggans í forsetakosningunum eru til marks um þessar breytingar. Það er hlægilegt að bjóða áskrifendum upp á fjögurra síðna lofgrein um ritstjóra blaðsins tveimur mínútum fyrir framboð hans til forseta. Rótgrónir stjórnmálaflokkar horfast í augu við áður óséðar mælingar. Nýir flokkar verða til. Allt eru þetta heilbrigðismerki galopins og kviks lýðræðissamfélags. Þetta eru góðar fréttir.

Talandi um góðar fréttir. Aldrei höfum við verið jafn rækilega minnt á það og á síðustu mánuðum hversu mikilvæg fréttastofa RÚV er, að hafa reynda og ærlega fréttamenn sem láta ekki undan hótunum ráðamanna, halda sínu striki og spyrja gagnrýninna spurninga — slíkt er ómetanlegt fyrir lýðræðissamfélag og um það verður að standa vörð. Vinnubrögð Kastljóssins í Panama-skjölunum sýna fagmennsku sem jafnast á við það sem best gerist í fréttamennsku í heiminum. Ég er bjartsýnn á að þessi hraustleikamerki á lýðræðinu leiði til vandaðri vinnubragða í stjórnmálunum, betri ákvarðana og betri stjórnmálamanna.

Ég hef stundum á þeim tíma sem ég hef unnið hér í þinginu, þegar ég hef farið með fjölskyldu mína í bæinn að fá mér bita í miðbænum, notað bílastæðin hér fyrir aftan þinghúsið. Þegar ég sagði krökkunum mínum um daginn að ég ætlaði ekki að bjóða mig fram aftur og að ég ætlaði að hætta á þingi þá sagði dóttir mín: Hvar eigum við þá að leggja? [Hlátur í þingsal.] Það eru mjög misjafnar áhyggjurnar sem fólk hefur af þessari ákvörðun, en þetta er góð ákvörðun fyrir mig prívat og persónulega. Það hafa verið forréttindi að fá að starfa hér á Alþingi síðustu tvö kjörtímabil, fá að kynnast þinginu, öflugu starfsliði þess, og taka þátt í mótun sögunnar, fá að vera lítið hjól í þessu gangverki sem stjórnkerfi landsins er. Fá að vinna fyrir ykkur. Þótt það sé tregi sem fylgir því að skilja við þennan vinnustað þá fylgir því líka spenna að taka upp tjaldhælana og hefja leitina að nýjum náttstað. — Góðar stundir.