145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

skýrsla um mansal.

[13:43]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Í dag kom út skýrsla frá Global Slavery Index sem er að skoða þrælahald í heiminum. Niðurstöðurnar eru nokkuð sláandi því Ísland er í 49. sæti á heimsvísu. Talið er að yfir 45 milljónir manna séu bundnir þrældómi í heiminum, en þrælahald, bara svo það sé á hreinu, er skilgreint þannig að fólk vinnur við aðstæður sem það getur ekki yfirgefið vegna hótana, ofbeldis, harðstjórnar, valdníðslu eða svika.

Mér finnst þetta vera mjög sláandi. Við höfum heyrt ýmis dæmi í fréttum af mansali á Íslandi. Þegar skýrslan er skoðuð kemur í ljós að Ísland fær einkunnina B sem er lægsta einkunn Norðurlandaþjóða og með þeim lægstu í Evrópu. Ráðherra hlýtur að taka þetta mjög alvarlega þannig að mig langar til að spyrja hvað sé verið að gera í þessum málum og hvernig eigi að bregðast við. Við getum ekki sætt okkur við að vera á þessum stað. Ég mundi gjarnan vilja fá svör frá hæstv. ráðherra hvort það sé einhver áætlun í gangi og hvort hún hafi haft tíma til að kynna sér þessar niðurstöður og hvað verði gert í framhaldinu. Þetta er ekki viðunandi.