145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

skýrsla um mansal.

[13:45]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur fyrir fyrirspurnina. Ég skal viðurkenna að ég hafði rekið augun í þessa fyrirsögn en ég hafði ekki kynnt mér nákvæmlega forsenduna fyrir niðurstöðunni í þessum mælingum.

Við höfum verið að vinna gegn mansali samkvæmt ákveðinni aðgerðaáætlun. Það sem hefur verið að gerast fyrst og fremst á undanförnum vikum og mánuðum er að ég held að samfélagið allt hafi verið að útvíkka skilgreininguna á mansali og átta sig á því. Áður voru menn mjög mikið að horfa á samspil mansals og vændis. Hins vegar höfum við gert okkur betur grein fyrir því að þarna undir geta fallið margvísleg störf sem við höfum verið að huga að. Þar hefur skipt verulega miklu máli sú fræðsla sem stjórnvöld hafa staðið fyrir í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins. Þar hefur líka skipt mjög miklu máli gott samstarf á milli verkalýðsfélaganna, Vinnumálastofnunar og Vinnueftirlitsins þar sem menn hafa farið með virkari hætti inn á vinnustaði. Við höfum átt í samtali við verkalýðsfélögin sem snýr almennt að stöðunni á vinnumarkaðnum og hvernig við viljum skilgreina sjálfboðavinnu í ljósi mála sem hafa verið að koma upp undanfarið.

Hins vegar held ég, í ljósi þess hvað umræðan er ný og þær upplýsingar sem við höfum verið að fá eru nýjar, að við þurfum svo sannarlega að huga að þessari niðurstöðu, fara vel yfir hana, og ég vænti þess að ég muni gera það í framhaldi dagsins í dag.