145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

uppfylling stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

[13:52]
Horfa

forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég skil vel að hv. þingmaður grípi til þess að renna yfir stjórnarsáttmála Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, enda ákaflega gott plagg þar sem birtist jákvæð framtíðarsýn um marga þætti. Hv. þingmaður nefndi þó nokkra hluti. Hvaða óvissa var hér uppi? Jú, að í mati ýmissa manna var m.a. talað hér um ýmsa aðila sem ég man ekki í svipinn hverjir eru, hv. þingmaður. Talað var um pólitíska óvissu. Talað var um að erfitt væri að fjárfesta hér m.a. vegna fjármagnshafta. Við höfum verið að vinna því að losa þau allt þetta tímabil, að eyða óvissu um að það sé í mjög góðu lagi að fjárfesta á Íslandi.

Varðandi vinnumarkaðinn höfum við unnið markvisst með aðilum vinnumarkaðarins í ýmsum málum. Þar má nefna SALEK. Þar má nefna þjóðhagsráð sem til stendur að boða til á næstu dögum. Þar hefur verið markviss vinna, bæði í samstarfi stjórnvalda við aðila vinnumarkaðarins. Hér má líka nefna, af því að hv. þingmaður talaði um að minnka sundurlyndi, og ég nefndi það einnig í ræðu minni í gær, að á yfirstandandi þingi hafi mál verið afgreidd hér með til þess að gera lágu hlutfalli nei-a, þ.e. með 1,8 nei-um á móti hverjum 100 já-um. Það er án efa dæmi um að það er minna sundurlyndi og meiri sátt. Hún birtist m.a. hér í þingsalnum sem mælikvarði á það hvernig öfl í samfélaginu, einstakir þjóðfélagshópar eða hagsmunaaðilar telja að hér sé verið að vinna sameiginlega að framförum þjóðarinnar.