145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

ákvörðun kjördags.

[13:58]
Horfa

forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Það gæti nú reyndar verið áhugavert ef Framsóknarflokkurinn væri hérna einn við völd í haust. En svo öllu gamni og gríni sé sleppt úr þessum ræðustól, hann er nú yfirleitt ekki notaður til slíks, gætu kannski orðið skemmtilegri eldhúsdagsumræður ef því yrði beitt aðeins, þá er staðan þessi og hefur verið mjög lengi að forustumenn stjórnarflokkanna hafa sagt að boðað yrði til kosninga í haust og það færi auðvitað eftir því hvernig gengi á þinginu.

Ég sagði í ræðu minni í gær að þingstörfin hefðu gengið býsna vel. Það er líka ljóst, og ég tek undir með hv. þingmanni, að ákveðinn undirbúningur þarf að eiga sér stað, ekki bara fyrir lýðræðið, fyrir þá stjórnmálaflokka sem fyrir eru, heldur hugsanlega nýja aðila til að undirbúa sig fyrir kosningar. Síðan eru ákveðin atriði sem snerta tæknilegar útfærslur, eins og hv. þingmaður kom inn á, um að tryggja að ekki sé tekinn kosningarréttur af fólki sem býr erlendis og til þess þurfa þessar tímasetningar að liggja fyrir með nægilegum fyrirvara. Ég hef sagt að það muni styttast í að hægt verði að upplýsa um það.

Það er hins vegar þannig að þegar menn segja að stefnt sé að einhverjum kjördegi þá er það auðvitað ekki lagalega bindandi fyrr en menn hafa rofið þing, eins og hv. þingmaður þekkir, og þá skal gengið til kosninga innan 45 daga. En ég tek undir með hv. þingmanni að það er mikilvægt að það skýrist fyrr en seinna til þess að menn geti undirbúið sig með bestum hætti.

Stutta svarið við fyrri spurningunni er já.

Framsóknarflokkurinn treystir sér alveg til kosninga eins og hver annar stjórnmálaflokkur og er að sjálfsögðu eins og aðrir stjórnmálaflokkar byrjaður að hefja undirbúning að þeim kosningum sem fyrirhugaðar eru í haust.