145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

Félagsmálaskóli alþýðu.

[14:03]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Með lögum frá árinu 1989 var Félagsmálaskóli alþýðu stofnaður. Hann er starfræktur af Alþýðusambandi Íslands, BSRB og Menningar- og fræðslusambandi alþýðu. Þeir síðastnefndu fara með rekstur á málefnum skólans. Hlutverk hans er að auka þekkingu talsmanna stéttarfélaga og efla þá í starfi til þess að þeir séu betur í stakk búnir til að vinna að bættum lífskjörum launafólks. Nú hefur mjög færst í aukana á undanförnum árum alls konar símenntun og endurmenntun og það er allt til hins góða. Svo virðist í töflu sem ég er með hérna fyrir framan mig að fjárveitingar til þessa skóla hafi lækkað með árunum. Það vekur athygli mína að í gær var útbýtt í þinginu frumvarpi til laga, flutningsmenn eru hv. þingmenn Guðlaugur Þór Þórðarson og Vigdís Hauksdóttir, um að fella niður þennan skóla. Þetta gerist á sama tíma og verið er að loka fyrir nemendur 25 ára og eldri inn í framhaldsskóla. Þá geta menn ímyndað sér að þeir sem ekki komast lengur þangað og eiga ekki peninga til að fara í einkarekna skóla vildu gjarnan sækja námskeið eða fræðslu einmitt í gegnum stéttarfélög sín. Mig langar að spyrja hæstv. félagsmálaráðherra: Hvernig líst henni á þá tillögu flokkssystur sinnar og hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar að lög um Félagsmálaskóla alþýðu, nr. 60/1989, falli brott?