145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl.

787. mál
[14:43]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir svörin. Fyrst hvað varðar þessar upplýsingar þá er ég alveg sammála hæstv. ráðherra, en það er mikilvægt að við áttum okkur á alvarleika vandans. Greining ríkisskattstjóra er upp á 80 milljarða, sem er reiknuð stærð. Það er algjörlega rétt, hún liggur fyrir. Við höfum líka séð greinar utanaðkomandi aðila, t.d. fræðimanna, sem meta jafnvel þennan vanda umfangsmeiri. Það er því mikilvægt að við reynum að fá sem mestar upplýsingar.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Sér hann fram á einhverjar lagalegar hindranir? Helsti vandinn er auðvitað skortur á upplýsingum. Lagalegar hindranir eru nokkuð sem við þurfum að skoða sérstaklega til þess að starfshópurinn geti aflað þeirra upplýsinga sem afla þarf til þess að við fáum góða mynd af umfangi vandans. Er búið að greina það? Liggur fyrir að hægt verði að afla upplýsinga um hlut aflandsfélaganna í skattsvikum?

Hins vegar langar mig að nefna að máli um þunna eiginfjármögnun var vísað til ríkisstjórnar 2014. Það hefur nú verið lagt fram í endurskoðaðri mynd af mér og samþingmönnum mínum úr Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og búið að taka tillit til þeirra athugasemda og umsagna sem þá komu fram. (Forseti hringir.) Ég hvet hæstv. ráðherra til þess að skoða það frumvarp því að (Forseti hringir.) mikil þörf er á því að Ísland setji sér slíkar reglur eins og mörg önnur Evrópuríki hafa þegar gert.