145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl.

787. mál
[14:46]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég vil fyrst lýsa því yfir að mér finnst frábært að þetta frumvarp til laga sé komið fram. Mig langaði að spyrja hæstv. ráðherra að því af hverju það hafi ekki komið fram fyrr, en það lítur út fyrir að þurft hafi gagnaleka og einhver stærstu mótmæli Íslandssögunnar til þess að þrýsta á að lögin tækju alla vega á sig endanlega mynd. Ég hef á tilfinningunni að málið hafi verið í undirbúningi í einhvern tíma í ráðuneytinu því maður hristir ekki svona flókin lög fram úr erminni á nokkrum vikum.

Mig langaði líka að spyrja hæstv. ráðherra um það að hann segir að við ætlum að starfa með öðrum þjóðum. Mig langaði að vita hvaða þjóðir það væru helst og hvaða lönd við höfum miðað okkur við í þessari lagasetningu og hvort ráðherrann geti farið aðeins yfir það, þetta er nú mjög stuttur tími, hvort við séum að reyna að gera það besta mögulega eða hvort við séum bara að reyna (Forseti hringir.) að bregðast við tíðarandanum.