145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl.

787. mál
[14:47]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég lít þannig á að málið hafi komið á dagskrá með þeim leka sem við vitum af núna fyrir nokkrum vikum. En þegar málið kemst á dagskrá þá er sú staða í skattframkvæmdinni að komin er nokkur reynsla á tiltölulega nýlegar lagabreytingar og á grundvelli þeirrar reynslu, skattframkvæmdarinnar sem byggir á þeirri reynslu, var tiltölulega auðsótt að sækja inn í stjórnkerfið hugmyndir að breytingum til þess að gera betur. Við eigum mikið af hæfu fólki, miklum sérfræðingum á þessu sviði. Við erum kannski hvað öflugust í samstarfinu innan OECD. En ég vil geta þess sérstaklega að OECD hefur verið í sérstöku átaki og á mikið hrós skilið fyrir þann ótrúlega árangur sem náðst hefur í því að leiða saman þjóðir til sameiginlegs átaks í þessu. Það eru ekki mörg ár síðan ég skrifaði undir alþjóðlegan samning fyrir Íslands hönd um upplýsingaskipti í framhaldi af þeim árangri sem þar hefur náðst. Við höfum horft m.a. til Noregs og dæmið um hugtakabreytinguna sem ég nefndi um endurskoðun á CFC-ákvæðinu er í átt til frekari skýringar, í takt við það sem við þekkjum í framkvæmd í Noregi.