145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl.

787. mál
[14:54]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Bróðir í Kristi. Við vitum það algjörlega að Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf verið á móti lagabreytingum af þessum toga, hefur verið sá flokkur sem alltaf hefur dregið lappirnar. Flokkurinn er að kaupa sér líf og þessari ríkisstjórn líf með þessari breytingu. Það voru 22 þús. manns hér fyrir utan sem kröfðust breytinga af þessum toga. Hæstv. fjármálaráðherra missti forsætisráðherrann sinn út á þetta og hefði getað misst meira en það.

En guð láti gott á vita og ég styð hæstv. fjármálaráðherra í þessari breytingu. Ég vildi bara að hún hefði komið fyrr. En ég held að hann viti ekkert um það þegar hann segir að þetta sé minna umleikis en áður. Gæti verið að markaðurinn væri bara mettaður?

Hefur hæstv. ráðherra hlustað á útvarpsþátt þar sem varaformaður fjárlaganefndar, hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, hélt því fram að upplýsingarnar um þessa 600 til þúsund einstaklinga væri bara toppurinn af ísjakanum sem kom í gegnum þetta panamíska fyrirtæki? Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson (Forseti hringir.) heldur því fram að þeir séu miklu fleiri. Bara 5% þýðir að það eru kannski (Forseti hringir.)12 þús. Íslendingar sem eiga slíka reikninga, þó að ekki væri mikill gangur í að koma fleirum í þessi skjól.

Ég held því fram (Forseti hringir.) að það sem skiptir mestu máli, herra forseti, sé að rannsaka umfangið. (Forseti hringir.) Það er það sem við hæstv. fjármálaráðherra eigum að bindast samtökum um að gera.