145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl.

787. mál
[15:00]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þetta. Það er þannig í núgildandi lögum að lögmönnum og endurskoðendum er skylt að halda skrá yfir þá sem leita ráðgjafar vegna erlendra eigna. Þetta er ákvæði sem var sett inn 2009 og er ég ekki viss um að það standist alveg alla skoðun. En allt að einu hefur ekki verið gerð athugasemd við ákvæðið frá því að það var sett inn.

Hér er hins vegar gengið miklu lengra með því að sérfræðingarnir þurfa óumbeðnir að láta skattyfirvöldum þessa skrá í té og þess utan þurfa þeir og er lagt á þá að fylgjast með eigum kúnna sinna erlendis, í þeim ríkjum sem tilgreind eru lágskattaríki, sem er ákveðið skilgreiningaratriði þannig að þeir þurfa að hafa skilgreiningar á reiðum höndum.

Þetta tel ég að hv. efnahags- og viðskiptanefnd (Gripið fram í.)þurfi að skoða sérstaklega ásamt öðrum ákvæðum hérna, t.d. um fyrningarfrest sem á að lengja núna í tíu ár, einkum og sér í lagi í ljósi þess að (Forseti hringir.) bókhaldsgögn eru almennt ekki geymd nema í sjö ár. Þetta þarf allt að haldast í hendur og menn þurfa auðvitað að hafa í huga (Forseti hringir.) þær aðstæður þegar til að mynda fjármálafyrirtæki rúllar á hausinn að ekki er hægt að afla upplýsinga tíu ár aftur í tímann.