145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl.

787. mál
[15:02]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er í sjálfu sér ekki heldur verið að snúa sönnunarbyrðinni við. Það gæti þá reynst erfitt fyrir skattyfirvöld að sækja gögnin eða upplýsingarnar. En skráin skal haldin samkvæmt gildandi lögum. Svo er því bætt við að menn skuli láta yfirvöldum í té upplýsingar um starfsemi og eignir sem þeim má vera kunnugt um. Því til viðbótar er síðan skyldan til þess að láta upplýsingar af hendi óumbeðið.

Ég skal fyrstur manna, og ég gerði það reyndar í umræðunni, gangast við því að hér er býsna langt gengið. Þess vegna finnst mér skipta máli að nefndin fái góðan tíma til að velta fyrir sér þeirri útfærslu sem er lögð til. Við þurfum þegar upp er staðið annars vegar að velta fyrir okkur hversu langt er hægt að ganga að lögum en ekki síður hversu langt við viljum ganga í þeim tilgangi að ná árangri á þessu sviði.