145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl.

787. mál
[15:20]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er töluvert viðkvæði í umræðum um þessi mál að við björgum ekki heiminum með því að breyta lögum hér heima. Það viðhorf kom mjög sterklega fram hjá hæstv. fjármálaráðherra áðan.

En það skiptir mjög miklu máli að við sýnum vilja og ákveðið fordæmi. Menn byrja á því að reyta illgresið úr garðinum sínum heima til þess að geta bent öðrum á og sagt: Svona er hægt að gera hlutina.

Þess vegna skiptir máli að við göngum langt. Ég ætla rétt að vona að við göngum lengra en þetta frumvarp gerir þó að það sé að mörgu leyti ágætt.

Þegar hæstv. fjármálaráðherra hefur lent í umræðu sem á köflum hefur verið hörð um þessi mál, hefur hann alltaf sagt: Íslendingar hafa gengið langt og lengra en aðrir. Þá hefur hann bent á tvennt: Í fyrsta lagi tvísköttunarsamninga og í öðru lagi CFC-reglurnar.

Ef ég man rétt þá eru þessir tvísköttunarsamningar næstum því 50 talsins og við hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gerðum flesta af þeim á síðasta kjörtímabili. Það var hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sem loksins tosaði í gegn lögin um sérreglurnar, sem hann og fleiri þingmenn höfðu þá í næstum 15 ár reynt að draga í gegnum ýmsar aðrar ríkisstjórnir.

Reynslan sýnir hins vegar að það er mjög tafsamt að beita tvísköttunarsamningunum. Það virkar en það tekur langan tíma. Við vitum líka að reynslan sýndi að sérreglurnar gengu ekki nógu langt.

Það er efablandið hvort þær breytingar sem nú er verið að gera gangi nógu langt. Þess vegna er ég áfram um að við stígum skrefinu lengra og bönnum einfaldlega Íslendingum að eiga reikninga í skattumdæmum þar sem íslenskar skatteftirlitsstofnanir segja að ekki sé hægt að sannreyna upplýsingar.

Menn voru hér árum saman lamdir í hausinn með þeim fullyrðingum að það mætti ekki út af EES. Herra trúr! Hvað hefur gerst núna á allra síðustu vikum? Þá hefur ESA stigið fram og sagt: (Forseti hringir.) Þetta er í lagi. Fyrst að það liggur fyrir þá spyr ég hv. þingmann: Er ekki mikilvægt að við tökum það skref og breytum frumvarpinu í þá veru?