145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl.

787. mál
[15:29]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég get tekið undir það með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að það var að mörgu leyti sögulegt og ánægjulegt að hlusta á hæstv. fjármálaráðherra flytja hér framsögu fyrir frumvarpi af þessu tagi. Hann fær auðvitað prik fyrir viðleitnina. Mér fannst að vísu svipurinn á hæstv. ráðherra meðan hann flutti framsöguna ekki vera þannig að hann væri að flytja sérstakan gleðiboðskap af sinni hálfu. Og auðvitað er þetta ekki gleðilegt efni. (Gripið fram í.) Á köflum kom mér í hug hið fornkveðna: „Mjög erumk tregt tungu að hræra.“ Hæstv. fjármálaráðherra varð svolítið stirt um mál þegar hann var að tala fyrir röksemdunum fyrir því að fara í þessar aðgerðir. En batnandi mönnum er best að lifa og það er alveg hárrétt að borið saman við frammistöðu íslenskra stjórnvalda á árunum kringum aldamótin og eftir það er ánægjuleg breyting að hæstv. ráðherra er að leggja fram frumvarp um aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl.

Viðleitni þessa frumvarps beinist í sjálfu sér fyrst og fremst að því að reisa skorður við skattsvikum gegnum þennan farveg. Að sjálfsögðu er það góðra gjalda vert en í aðalatriðum er sú nálgun hér á ferð og hún dregur skammt gagnvart hinum þætti þessa máls sem er að stoppa í göt sem opin eru fyrir skattsniðgöngu, þ.e. hér ber að aðgreina þessi hugtök. Það er auðvitað alger samstaða um það og enginn talar lengur gegn því að beita eigi fyllstu hörku og festu gagnvart því að menn greiði skatta í samræmi við lög og reglur og svíkist ekki undan því. Við þurfum samt líka að hafa augun á götum í kerfinu og möguleikum óprúttinna aðila, sem vilja komast undan því að leggja sitt af mörkum, til skattsniðgöngu. Vandi umræðunnar hefur á köflum verið sá að menn hafa viljað draga skýr skil á milli þess sem er lögbrot og alls hins. Hæstv. fjármálaráðherra hefur svolítið verið í þeim hópi. En við verðum líka að taka það til gagngerrar skoðunar hvernig við viljum hafa skattumhverfið og lögin, viðurlög og tæki og tól, til að koma í veg fyrir að áfram séu opnir farvegir fyrir það að koma tekjum, eignum og arði úr landi og komast þannig með sniðgöngu undan íslenskum skattgreiðslum. Þá er ekki víst að bara hert framkvæmd óbreyttra eða tiltölulega óbreyttra reglna dugi. Þá verðum við stjórnmálamennirnir að fara yfir lögin út frá þessum pólitíska vinkli vegna þess að skattframkvæmdin, ríkisskattstjóri og skattrannsóknarstjóri, er auðvitað bundin af gildandi lögum og getur lítið við því gert jafnvel þó að hún sjái að á þeim eru göt og að fjármunir komist undan sköttum í þeim efnum.

Verkefnið hlýtur að vera að koma almennt í veg fyrir skattsniðgöngu, ekki bara skattalagabrot sem þarf ekki að ræða heldur skattsniðgöngu, þannig að til skattlagningar á Íslandi komi allar þær tekjur og eignir sem við með réttu ættum að fá skatta af. Þá erum við komin inn á hið gráa svið skattsniðgöngunnar. Það þýðir ekki annað en að taka það líka rækilega til skoðunar. Jú, það eru úrbætur í þessu máli sem eru að sjálfsögðu góðra gjalda verðar, eins og að lengja bæði heimildir til eftiráálagningar í tíu ár og að fyrning saka lengist líka í tíu ár. Það er góðra gjalda vert. Það er sömuleiðis ágætt að hér á að styrkja áfram og enn betur umgjörðina utan um CFC-reglurnar sem eru tiltölulega beitt tæki í þessum efnum og settar voru í tíð fyrri ríkisstjórnar eftir langt tómarúm þar sem ekkert hafði í raun og veru verið gert á Íslandi og við drógumst hratt aftur úr nálægum löndum hvað það varðar að beita skattlagningarvaldi okkar og löggjafarvaldi til að sporna við þeim ósóma sem flóttinn á aflandssvæðin er.

Ég er sem sagt að segja að það þurfi meira til að mínu mati. Það þarf bæði að taka í sumum tilvikum að mínum dómi fastar á því sem hér er undir í frumvarpinu en það verður líka að ræða hvort áfram séu göt. Eru áfram farvegir þar sem fjármunir, hagnaður og eignir komast undan skattlagningu „með löglegum hætti“ á gráu svæði skattsniðgöngunnar? Það er líka viðfangsefnið. Á því finnst mér of lítið tekið hér.

Hvers vegna hefur þetta fyrirkomulag, þessi viðbjóður liggur mér við að segja, viðgengist og grasserað alveg sérstaklega núna síðustu 15–30 árin í vestrænum heimi, og ekki bara þar heldur um allan heim, jafn óþolandi og raun ber vitni? Þá á ég við málið í heild, ekki bara spurningu um hvað sé löglegt eða ólöglegt, löglegt en siðlaust. Í fyrsta lagi hefur það dregist mjög skýrt upp fyrir okkur Íslendingum að að þessu leyti eru tvær þjóðir í landinu. Það verður svo á Íslandi og annars staðar að það verður aðeins á færi hinna sterkefnuðu og þeirra sem hafa lögfræðinga á bak við sig og geta leitað sér ráðgjafar hjá bönkum og eru með stórar fjárhæðir undir að nýta sér svona úrræði. Það eru forréttindaklíkur í hverju landi fyrir sig sem komast undan því að bera sinn eðlilega hluta af byrðunum í gegnum farveg af þessu tagi. Það eru ekki Jón og Gunna. Það eru tvær þjóðir.

Í öðru lagi er þetta afsiðandi. Það er u.þ.b. eins afsiðandi og nokkuð getur verið að einhver hluti þeirra sem bestar aðstæður hefðu til að leggja sitt af mörkum komist svona undan því. Ætli það sé ekki þannig að ýmsir þeir sem hafa nýtt sér þetta á undanförnum árum eða jafnvel áratugum, með því að fela t.d. umboðslaun og hluta af greiðslum vegna útfluttrar vöru eða þjónustu, skila því aldrei heim til Íslands heldur geymi það á reikningum úti, hafi svo ætlað sér að eldast á Íslandi, frú forseti, nota heilbrigðisþjónustu á Íslandi á efri árum? Ætli þeir hafi ekki haft börnin sín hérna í skóla og notið allrar almennrar þjónustu í landinu? Þeir vildu bara ekki borga fyrir það, ekki alveg, ekki nema örlítið, voru kannski með vinnukonuútsvar, töldu fram vinnukonulaun um árabil og földu hagnaðinn erlendis.

Í þriðja lagi á land eins og Ísland, sem vonandi er áfram sæmileg samstaða um að eigi að vera norrænt velferðarsamfélag, að líta á þetta sem alveg sérstaka ógn við hugmyndafræði og grundvöll þess þjóðfélagsskipulags sem við viljum hafa hér, að við leggjum sameiginlega af mörkum til að geta haft öfluga, opinbera þjónustu, gott sameiginlega fjármagnað heilbrigðiskerfi, menntakerfi, almannatryggingar, sjúkratryggingar og þar fram eftir götunum. Það er sérstaklega mikilvægt fyrir land með okkar þjóðskipulag, þar sem við vonandi viljum vera og tilheyra áfram hinni norrænu fjölskyldu velferðarsamfélaga, að líta á þetta sem alveg sérstaka ógn.

Í fjórða lagi er misskiptingin. Þetta er, eins og hv. þm. Katrín Jakobsdóttir kom réttilega og vel inn á, einmitt einn af meginfarvegum þess að búa til misskiptinguna í löndunum. Ofan á auðinn hleðst meiri auður og ef ekki er einu sinni náð af honum eðlilegum skatttekjum vex hann enn hraðar og það dregur enn hraðar í sundur. Það er það sem hefur gerst í hinum vestræna heimi þar sem 1% á meira en 99% og 10% á Íslandi eiga tvo þriðju eignanna eða hvað það nú er. Þannig er staðan, hún hefur versnað hratt. Það dregur í sundur aftur núna, það er alveg á hreinu.

Að lokum er þetta svo samofið mörgum viðbjóðslegustu hlutunum sem við stöndum frammi fyrir í samfélögum nútímans að það hálfa væri nóg. Lágskattasvæðin og leyndin þar eru skjólið fyrir hagnaðinn af skipulagðri glæpastarfsemi. Þetta er farvegurinn fyrir peningaþvættið. Þetta er farvegurinn þar sem þróunarlöndin eru blóðmjólkuð af spilltum yfirvöldum. Auður Afríku flæðir í stórum stíl út úr Afríku í gegnum spillta ráðamenn þar inn í lágskattasvæði. Þetta vita allir. Þó að okkur finnist þetta blóðugt hér og renni blóðið til skyldunnar, verandi mögulega heimsmeistarar í þessari íþrótt, erum við samt sem áður og þrátt fyrir þetta sæmilega efnuð þjóð. Það er ekki þannig að almenningur svelti hér á götum heilu hungri í stórum stíl eða fái ekki heilbrigðisþjónustu eða eigi ekki aðgang að drykkjarvatni eins og er á sumum bágstöddustu svæðum heimsins. Þar er staðan iðulega sú að því litla af þjóðarauði sem þó er til skiptanna er safnað á örfáar hendur spilltra yfirvalda, ráðamanna sem fara með það beint í skattaskjól. Blóðugust er þessi saga kannski þegar hún er skoðuð og lesin með gleraugum þróunarríkjanna.

Mér finnst frammistaða hæstv. fjármálaráðherra — hann les þetta bara í þingtíðindunum úr því að hann þarf að vera í símanum á meðan við ræðum málin — hvað varðar þunna eiginfjármögnun ekki beysin. Það þýðir ekkert að reyna að segja mér það sem gömlum fjármálaráðherra að fjármálaráðuneytið hafi ekki getað lagfært það litla sem út af stóð í vel undirbúnu frumvarpi sem hér var á dagskrá veturinn 2013–2014 og efnahags- og viðskiptanefnd fór ágætlega yfir, fékk umsagnir um og kallaði til gesti og staldraði við nokkur óútkljáð atriði sem aðallega snerust um það hvernig skilgreina bæri nákvæmlega vaxtaviðmiðanirnar og annað í þeim dúr, að fjármálaráðuneytið ráði ekki við að klára það á þremur árum. Ég þekki fjármálaráðuneytið og veit hvað þar er öflugt fólk. Það er eitthvað undarlegt við að þetta skuli ekki hafa tekist á þessum tíma sem ég hefði talið að með sérfræðingum fjármálaráðuneytisins, jafnvel með aðstoð þeirra manna sem voru í sérstakri nefnd sem undirbjó málið og var sett af stað í okkar tíð, að hefði átt að vera hægt að klára á tveim, þrem mánuðum. Nú eru liðin slétt tvö ár frá því að hæstv. fjármálaráðherra fékk það verkefni frá þinginu, vorið 2014, að ljúka þessari vinnu yfir sumarið og skila niðurstöðunni til efnahags- og viðskiptanefndar. Það var með öðrum orðum skýr og einróma niðurstaða í nefndinni að við vildum setja þessar reglur enda voru umsagnir og gestakomur allar í þá veru að menn töldu að það ætti að setja reglur um þunna eiginfjármögnun í skattalög á Íslandi. Það eru nokkur útfærsluatriði og tæknileg atriði sem þarf að skoða betur. Menn voru meira að segja komnir að niðurstöðu og voru sammála nefndinni um val á milli tveggja ólíkra nálgana sem uppi eru almennt í þessum efnum og ekkert annað eftir en að útkljá þessi tæknilegu atriði. Hæstv. fjármálaráðherra verður að gera betur, ég tek undir það. Er ekki einfaldlega hægt að taka það frumvarp sem nú liggur fyrir þinginu, og er betrumbætt með tilliti til umsagna og ábendinga og að mínu mati nánast fullunnið, og afgreiða það með, taka það inn í þetta sem breytingartillögu? Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra þegar hann má vera að því að hlusta og svara: Hefur hann eitthvað á móti því að efnahags- og viðskiptanefnd taki bara við málinu aftur úr því að honum dugðu ekki tvö ár til að ljúka því litla sem honum var sett fyrir? Væri hæstv. fjármálaráðherra nemandi í barnaskóla og stæði sig svona í heimanáminu fengi hann ekki háa einkunn. Það þykir almennt ekki gott að geta ekki skilað heimaverkefnum á tveimur árum, sérstaklega svona tiltölulega einföldum.

Ísland sem heimsmeistari í þeirri geðslegu íþrótt að stofna félög og vera með umsvif á bak við tjöldin í aflandsfélögum verður að taka þetta alvarlega, sjálfs sín vegna og umheimsins vegna. Við erum í hryllilegu ljósi og búin að vera það undanfarnar vikur í þessum efnum. Það er ömurlegt að vera í samskiptum við erlenda vini sína og kollega gegnum tíðina sem yfirleitt spyrja í forundran: Hvernig er þetta með ykkur Íslendinga? Og gráta yfir því að þetta skuli hafa þurft að ganga yfir okkur svona skömmu eftir hið heimsfræga hrun sem setti okkur því miður heldur betur á kortið. Við eigum að rannsaka þessi mál og gera allt sem við getum til að sanna og sýna sjálfum okkur og umheiminum að við ætlum ekki að láta bjóða okkur þetta.

Að lokum eitt, frú forseti, sem skiptir miklu máli hér. Ef það á að verða og takast að rýmka gjaldeyrishöft verulega, því að enginn er að tala um að það sé raunhæft að afnema þau, sem mun að vísu ekki gerast fyrr en á næsta kjörtímabili úr þessu, skiptir enn meira máli að við höfum lagaumgjörðina klára því að þá breikka vegirnir aftur út úr hagkerfinu fyrir þá sem vilja áfram reyna að stunda þessa íþrótt. Það verður minna hægt að setja þessu skorður með því að takmarka sjálfar fjármagnshreyfingarnar. Við höfum minni yfirsýn yfir það þegar það er komið í einhvern annan og rýmri farveg. Það er mjög brýnt að fara (Forseti hringir.) rækilega í gegnum þetta og kemba þetta til enda og helst reyna að róa fyrir hverja vík þannig að að því marki sem gjaldeyrishöftin rýmka hér á komandi missirum verði þessi lagaumgjörð klár.